Arðgreiðslur tryggingafélaga (aftur) og dýr fjármögnun

Fyrir ári síðan skrifaði ég grein þar sem ég furðaði mig á arðgreiðslustefnu tryggingafélaga. Í greininni kom fram að samtala arðgreiðslna hjá Sjóvá, VÍS og TM væri 10,5 milljarða króna vegna ársins 2014. Í greininni kom eftirfarandi fram:

Áhugavert er að bera þessa tölu saman við nokkrar stærðir þessara þriggja félaga. Samtala eigin fjár þeirra í árslok 2014 var 48 milljarðar króna. Markaðsvirði þeirra í dag er samanlagt í kringum 65 milljarðar króna. Því er verið að greiða út í arð vel ríflega 20% af eigið fé félaganna og rúmlega 15% af markaðsvirði þeirra.

Samanlagður hagnaður félaganna var árið 2014 4,8 milljarða króna. Þessi tala var árið áður, þ.e. 2013, um 6,2 milljarða króna. Samanlagðar arðgreiðslur í ár fara því langt með að dekka ekki einungis allan hagnað árið áður heldur einnig hagnað árið 2013. Því má við bæta að eina félagið sem hagnaðist af einhverju viti á tryggingarstarfseminni sjálfri var Sjóvá. Nær allur hagnaður TM og VÍS árið 2014 var vegna ávöxtunar á fjárfestingum þeirra.

Ég taldi á þeim tímapunkti að skynsamlegra væri að móta arðgreiðslustefnu sem tæki mið af hagnaði umfram verðbólgu. Segja má að með því stefni félög að því að tryggja stoðir undirliggjandi raunverðmæta með því að halda ávallt eftir næganlegt fjármagn til að eigið fé sé í það minnsta jafn mikið og árin áður að teknu tilliti til verðbólgu. Þess til viðbótar ætti að meta hversu mikið ætti að greiða til hluthafa og hversu mikið ætti að halda eftir til að beina í nýjar fjárfestingar og jafnvel viðhaldi eigna sem ekki kemur fram á afskriftarreikningi. Þessi nálgun myndi til að mynda auka lánshæfismat tryggingafélaga sem ætti þá að koma fram í betri lánskjörum varðandi fjármögnun þeirra og til lengri tíma auka arðsemi þeirra að teknu tilliti til áhættu.

Var meðal annars fjallað um þetta í þættinum Viðskipti sem sýndur er á ÍNN - 

http://inntv.is/Horfa_a_thaetti/Vidskipti/?play=121444852. (umræða um þetta hefst á 22. mínútu)

Nú, ári síðar, leika tryggingafélögin aftur svipaðan leik. Reyndar eru samanlagðar arðgreiðslur minni í ár, eða um 9,5 milljarða króna. Það er þó um 70% hærri upphæð en samanlagður hagnaður þeirra. Því er aftur verið að minnka eigið fé þeirra töluvert mikið og því verið að auka áhættu í rekstri þeirra.

Það er áhugavert að VÍS, sem í fyrra greiddi lægstu arðgreiðsluna, greiðir nú 5 milljarða króna í arð í ár (Sjóvá og TM greiddu hvort um sig 4 milljarða króna í arð í fyrra án þess að mikið hafi verið eftir því tekið í almennri umræðu). Í fyrra var arðgreiðsla VÍS aðeins 2,5 milljarða króna. Það sem hefur lítið farið fyrir í ár er að sú arðgreiðsla er að stórum hluta til fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa. Samkvæmt tilkynningu frá Kauphöllinni - https://cns.omxgroup.com/cdsPublic/viewDisclosure.action?disclosureId=698663&messageId=873750 - var samtala skuldabréfanna 2,5 milljarða króna. Skuldabréfaútgáfan er sama upphæð og nemur aukningu arðs á milli ára. Eftirfarandi er afritað af ofangreindri tilkynningarsíðu Kauphallarinnar:

Hin nýju skuldabréf eru vaxtagreiðslubréf og bera 5,25% fasta verðtryggða vexti. Skuldabréfin eru til 30 ára en í bréfunum er uppgreiðsluheimild og þrepahækkun í vöxtum upp í 6,25% eftir 10 ár.

VÍS er með öðrum orðum að fjármagna arðgreiðsluna með útgáfu skuldabréfa á kjörum sem eru talsvert slakari en flestir Íslendingar fjármagna íbúðakaup sín. LSR býður til dæmis uppá fasteignalán þar sem að fastir vextir eru 3,60% og breytilegir vextir eru 3,13%.

Til að setja þessi kjör í einfalt samhengi, þá mun fjárfestir sem kaupir bréfin á þessum kjörum (miðað við að bréfin séu seld á pari) og getur endurfjárfest vaxtagreiðslur á sömu kjörum næstu 10 ár eiga orðið 66% meira að raunvirði. Þetta kalla ég góða ávöxtun sem eigandi skuldabréfs, en afleit ávöxtun væri ég skuldari. Vaxtakjörin eru reyndar svo slök að áætla mætti að töluverð áhætta væri fólgin í rekstri VÍS. Slíkt á ekki að eiga sér stað hjá tryggingarfélagi.

Því er ekki einungis vert að setja spurningarmerki við arðgreiðslustefnur tryggingafélaga heldur einnig fjármögnun þeirra.

MWM

Hér er upphafleg grein mín þar sem ég furða mig á arðgreiðslustefnu tryggingafélaga frá 11.3.2015 - http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/marmixa/1653428/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband