Versnandi verðbólguhorfur - lækkandi verðbólguálag

Áhugavert hefur verið að fylgjast með íslenskum verðbréfamörkuðum í þessari viku. Verðsveiflur hafa verið töluverðar vegna mikilvægra tilkynninga í vikunni.

Sígildir undanfarar verðbólgu

Það sem hefur komið mér mest á óvart er að íslenska krónan hefur nánast staðið í stað. Sjálfur gerði ég ráð fyrir að fréttir mánudagsins myndu leiða til verulegrar styrkingar hennar því þó að afnám gjaldeyrishafta væri loks fyrirsjáanlegt þá taldi ég höggið vera meira en nú er gert ráð fyrir. Styrkingin gekk aðeins eftir í takmörkuðum mæli sem er vísbending um að markaðsaðilar á gjaldeyrismarkaði höfðu gert ráð fyrir álíka fréttum. Þess ber þó að hafa á í huga að Seðlabankinn er einn afar stór markaðsaðili og jafnvel ráðandi á gjaldeyrismarkaði.

Á þriðjudaginn voru hagvaxtartölur birtar. Þær sýna að hagvöxtur og neysla eru að aukast í takti við spár greiningaraðila. Því til viðbótar var staðfest að uppbygging á kísilveri á Bakka við Húsavík væri handan hornsins sem á eftir að auka þenslu töluvert mikið á Norðulandi. Þessar fréttir munu líklegast auka hagvöxt og neyslu enn frekar. Gengi íslensku krónunnar veiktist hins vegar aftur á þriðjudaginn og er nú á svipuðum slóðum og það var í síðustu viku.

Þó svo að líklegt sé að ríkissjóður noti stóran hluta af þessum 600-800 milljörðum króna (um það bil allar skatttekjur ríkissjóðs á 18 mánuðum) til að greiða niður skuldir þá hlýtur eitthvað af þessu fjármagni fara beint í hagkerfið (lækkun vaxtagreiðslna væri í sjálfu sér stórt skref í aukningu fjármagns). Væntanlega gerist slíkt að mestu leyti í formi lægri skatta og hærri launa. Bæði atriðin kynda undir verðbólgu.

Óverðtryggð bréf - minnkandi verðbólguálag

Því er það áhugavert að ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa hefur lækkað töluvert í upphafi þessarar viku. Lengstu ríkisbréfin hafa hækkað um 3% í virði samhliða u.þ.b. 25 bps lækkun á ávöxtunarkröfu þeirra (sambandið á milli verðs skuldabréfa og ávöxtunarkröfu þeirra rambar). Ávöxtunarkrafan á verðtryggðum íbúðabráfum hefur aftur á móti nánast staðið í stað. Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að verðbólguálagið sé að minnka.

Það er hægt að mæla það í dögum hversu stutt er síðan að umræða átti sér stað um að stýrivextir gætu farið í tveggja stafa tölu. Eðlilegt var að ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa myndi hækka nokkuð. Það að tíðindi um enn frekari hagvöxt og nokkuð augljós merki um að fjármagn sé í þann mund að aukast töluvert í hagkerfinu, sem eykur almennt verðbólgu, leiði til þess að ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa lækki er athyglisvert. Ég spurði nokkra félaga skýringa á þessu og eru bestu skýringar að mínu mati útlistaðar að neðan.

Rökréttar skýringar á órökréttri þróun

Hugsanlega má segja að verðbólguálag óverðtryggðra ríkisbréfa hafi verið orðið nokkuð hátt. Það var komið í u.þ.b. 4,5% en var nálægt 2,5% síðustu áramót. Þessi rök skýra þó ekki svo snarpa lækkun á ávöxtunarkröfunni. Hugsanlega hafa markaðsaðilar einnig haft ákveðið óvissuálag í ávöxtunarkröfunni vegna losun gjaldeyrishafta sem nú hefur lækkað verulega. Því til viðbótar (og þetta tel ég vera afar áhugaverða skýringu, einnig með tilliti til hlutabréfa) gerir losun gjaldeyrishafta það að verkum að fjárfestar fari að bera saman háa ávöxtunarkröfu sem gerð er til innlendra skuldabréfa og erlendra.

Má í því tilliti benda á að ég hef lengi talið að ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa ætti að lækka töluvert mikið (hef m.a. fjallað um það í fyrri pistlum á þessum vettvangi). Sé þetta raunin er hugsanlegt að ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa eigi eftir að lækka mikið. Það myndi hafa afar jákvæð áhrif fyrir íslenskt efnahagslíf og gera það að verkum að ný lán útgefin af ríkinu bæru lægri vaxtakostnað.

Annað vert að nefna er að þróunin í vikunni á líklegast eftir að bæta lánshæfismat íslenska ríkisins. Þar sem að lánshæfismat íslenska ríkisins er almennt þak á lánshæfismati íslenskra fyrirtækja þá er viðbúið að þau myndu geta fjármagnað sig á lægri vaxtakjörum. Þetta gæti skapað hringrás þar sem að lægri vaxtakjör mynda betri afkomu og aukin stöðugleika, sem aftur gerði það að verkum að lánshæfismat yrði aftur hækkað.

Einn annar afar áhugaverður punktur sem er að eigendur aflandskróna eiga mikið af stuttum ríkisbréfum sem verða að stórum hluta flutt yfir í löng ríkisbréf sem verða "læst" í ákveðinn tíma. Endurfjármögnunarþörf íslenska ríkisins verður því minni næstu árin. Auk þess virðist vera ljóst að þörfin fyrir útgáfu nýrra ríkisbréfa verður minni næstu ár. Frá einföldu tilliti framboðs og eftirspurnar er líklegt samkvæmt þessu að ávöxtunarkrafan lækki smám saman næstkomandi ár.

Stýrivextir

Vaxtatilkynning er væntanlega frá Seðlabankanum innan 60 mínútna þegar að þessar línur eru skrifaðar. Almennt er búist við 50 bps hækkun stýrivaxta. Það kæmi mér þó ekki á óvart að hækkunin verði meiri. Í það minnsta geri ég ráð fyrir að sterklega verði gefið til kynna að fleiri hækkanir séu yfirvofandi á næstu mánuðum. Verður sérstaklega áhugavert að heyra hvaða áhrif Seðlabankinn telur að losun gjaldeyrishafta hafi á efnahagslífi Íslands næstu misseri. Verði tónninn mildari en ég geri ráð fyrir mun ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa lækka töluvert meira á næstunni. Verði hækkunin hærri en 50 bps tel ég líklegt að ávöxtunarkrafan ríkisbréfa hækki töluvert, sérstaklega þeirra á styttri endanum og gæti kúrfan jafnvel orðið innan skamms niðurhallandi.

MWM

Viðbót klukkan 9.03 - Stýrvivextir voru hækkaðir um 50 bps en fram kemur í tilkynningu frá peningastefnunefnd að verðbólguhorfur séu versnandi og "..að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband