Íbúðalánasjóður lagður niður

Í frétt Morgunblaðsins í síðustu viku kemur fram að sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur undanfarið verið að störfum hérlendis mælir með að Íbúðalánasjóður verði lagður niður. Í fréttinni kemur orðrétt fram: "Stjórn­völd eru sögð þurfa að huga að því að leysa upp Íbúðalána­sjóð með skipu­leg­um hætti til að lág­marka kostnað rík­is­ins og kerf­isáhættu. Jafnframt ætti að leita sam­stöðu um helstu fé­lags­leg mark­mið íbúðalána áður en arf­taka stofn­un­ar­inn­ar verður komið á fót."

Þetta eru skilaboð sem vert er að athuga, en að vel athuguðu máli. Ljóst er að tap Íbúðalánasjóðsins verður gríðarlegt, þó svo að ágreiningur ríki um hversu nálægt sú tala verði niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis, sem metur bókfært tap sjóðsins vera í kringum 100 milljarða króna árin 1999-2012. Það er ekki fjarri VLF Íslands í rúmlega þrjár vikur. Það með er ekki nauðsynlega öllu á botninum hvolft því að nefndin taldi að tapið gæti í framtíðinni orðið töluvert hærra (aftur, það eru skiptar skoðanir um það). Hvert tap sjóðsins, sem lendir á ríkinu og þar með skattgreiðendur, verður í lokin er ljóst að það verður það gríðarlegt og hætta á öðru kerfisbundnu tapi er ávallt til staðar.

Samkeppni og óvitræn útlánastefna

Það er ekki langt síðan að alvöru samkeppni var ekki til staðar á íslenskum fjármálamarkaði. Samkeppni byggðist helst á því að byggja útibú og þjónusta fólk í almennum bankaviðskiptum. Vaxtafrelsi var ekki ríkjandi og því var íslenskt samfélag í fjármálalegum höftum þar sem að annaðhvort óðaverðbólga ríkti eða að fólk þurfti að sætta sig við raunvexti sem voru jafnvel töluvert hærri en í dag (þeir eru allt of háir í dag). Í slíku umhverfi má segja að grundvöllur hafi verið til staðar að setja upp stofnun sem sérhæfði sig í útlán til íbúðakaupa. Íslendingar meta einstaklingsfrelsi afar mikið og að eiga eigið húsnæði er stór hluti af því að líta á sig sem sjálfstætt fólk.

Tilvera Íbúðalánasjóðs hafði því fram að aldamótum fullan rétt á sér í hugum margra. Með einkavæðingu bankanna og aukinni samkeppni því á fjármálamörkuðum má segja að tilverurétturinn hafi ekki verið jafn augljós. Framkvæmd húsnæðislána flestra banka var því miður með þeim hætti að þau voru oft á tíðum lítt trúverðug. Má í því tilviki nefna vaxtakjör sem voru það lág að þeir hreinlega töpuðu á þeim, glóruleysi í lánum bundnum í erlendum myntum og ákvæði um skuldafjötra (fólk mátti í sumum tilfellum ekki flytja bankaviðskipti nema með óheyrilegum kostnaði) samhliða ákvæðum um endurmati vaxtakjara samkvæmt duttlungum banka, oftast fimm árum eftir að lánasamningur (oft til 40 ára) var undirritaður. Hefðu íslensku bankarnir haldið áfram starfsemi í sömu mynd hefðu þeir með öðrum orðum getað hækkað raunvexti fólks án nokkurra skýringa. Þessir brestir bankanna gerðu það að verkum að rök um tilveru Íbúðalánasjóðsins höfðu enn hljómgrunn, sérstaklega í kjölfar hrunsins.

Það er ekki samt sem svo að Íbúðalánasjóðurinn hafi verið einhvers konar akkeri í húsnæðislánum. Sjóðurinn tók þátt í þeirri glórulausu útlánaaukningu sem hófst árið 1999 og segja jafnvel margir að hann, eða öllu heldur ákveðnir stjórnmálamenn sem höfðu ábyrgð á sjóðnum, hafi verið leiðandi í þeirri þróun. Þetta svipaði til þess sem gerðist í Svíþjóð og Finnlandi síðastliðinn níunda áratug þegar að afnám hafta í fjármálageiranum áttu sér stað og fjármálastofnanir fóru að lána meira til að mæta minnkandi vaxtamun, sem á sér oftast stað þegar að höft eru afnuminn. Algeng slæm afleiðing slíkrar þróunar er vanmat á áhættu við slíkar lánveitingar og útlánatöp þegar að slíkt vanmat kemur á daginn með tilheyrandi afskriftum.

Betri lánveitingar, en þó fákeppni

Líklegt er að reynsla íslenskra fjármálastofnanna verði svipuð reynslu Svía og Finna í framhaldi af bankakreppunni í þeim ríkjum á fyrri hluta síðasta tíunda áratugar (aðallega 1990-1992). Meira aðhald var í útlánum til fasteignakaupa í framhaldi af kreppunni og kom það sér til að mynda afar vel í Svíþjóð þegar að fasteignaverð hrundi í flestum vestrænum ríkjum árin 2008-2010, en fasteignaverð í Svíþjóð hækkaði jafnvel á sumum svæðum á því tímabili. Fasteignalán verða væntanlega veitt með meiri varfærni í framtíðinni. Þetta kæmi til að mynda sjóðsfélögum í lífeyrissjóðum sér vel. Útlán lífeyrissjóða væru það varfærin að ekki þyrfti að afskrifa mikið af útlánum. Á sama tíma ættu raunvextir slíkra útlána að lækka (sem er gott fyrir núverandi lánveitendum) en veita þó sjóðsfélögum viðunandi ávöxtun.

Þó svo að lífeyrissjóðir séu hluti af flórunni þegar kemur að lánveitingum húsnæðislána þá er engu að síður fákeppni ríkjandi á íslenskum markaði, með aðeins þrjár bankastofnanir með nánast öll bankaviðskipti landsmanna. Þeir sem ekki eiga aðgang að lánum hjá lífeyrissjóðum (eða einungis á óhagstæðum kjörum) hafa því fáa kosti varðandi lánveitingar. Ef Íbúðalánasjóður yrði lagður af þyrfti samkeppniseftirlit hjá bönkunum að vera afar strangt hvað íbúðalán varðar.

Miðstýring og hagvöxtur

Þó svo að Íbúðalánasjóður hafi að sumu leyti þjónað hlutverki sínu ágætlega í gegnum tíðina þá sýnir reynslan að miðstýrðar fjármálastofnanir með mikla pólitíska íhlutun (hér gef ég mér að bankastofnanir hafi alltaf pólitíska íhlutun, einungis mismikla) dragi úr skilvirkni lánveitinga. Það að draga einfaldlega úr lánveitingum er heldur engin lausn. Þær þjóðir sem veita ekki nægjanlegar lánveitingar hafa almennt slakari hagvöxt en þjóðir þar sem að samkeppni ríkir á fjármálamörkuðum og lánveitingar meiri.

Því ætti að athuga vel hvort leggja eigi Íbúðalánasjóð niður, annaðhvort með því að hann einfaldlega hætti að veita lánveitingar eða eignasafn hans yrði selt. Báðar leiðir leiða óhjákvæmilega til einhvers taps, sem mun hvort er eð einhvern tímann koma fram. Á sama tíma þyrfti þó að koma í veg fyrir að fákeppni á íslenskum markaði leiði til þess að vaxtakjör eða aðrar heftandi skuldbindingar af hálfu lántaka verði ekki raunin. Eitt skref í þá áttina væri að innleiða lyklalög.

MWM

Hægt er að hlusta á viðtal við mig í Speglinum í síðustu viku þar sem að ég fjalla um þetta málefni hérna.

http://www.ruv.is/frett/a-ad-leysa-upp-ibudalanasjod

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband