Ekki alveg grandalaus hlutabréfamarkaður

Töluvert mikið hefur verið fjallað um það síðustu misseri að hlutabréfamarkaður Íslands væri orðinn froðukenndur. Hafa sumir jafnvel talað um að bóla hafi nú þegar myndast, meðal annars vegna gjaldeyrishafta. Oft hefur í því tilliti verið bent á að fjárfesting í hlutabréfaútboðum hafi verið ávísun á auðfenginn hagnað fyrir alla þá sem hafa tekið þátt í þeim.

Þessi rök eru skiljanleg. Gengi sumra félaga hefur hækkað gífurlega mikið strax í kjölfar útboða og í sumum tilfellum, til dæmis Haga, hefur virði hlutabréfanna margfaldast í framhaldi af útboðum. Því er ekki óeðlilegt að margir hafi talið að þátttaka í hlutabréfaútboðum væri nálægt því að vera áhættulaus fjárfesting.

Það hefur hins vegar átt sér stað töluverð hagnaðaraukning undanfarin ár, og er Hagar líklegast besta dæmið um stöðuga hagnaðaraukningu (það er vel að merkja ekki í hendi að hún verði viðvarandi). Miðað við hagnað íslenskra fyrirtækja sem hafa skráð hlutabréf félaganna í Kauphöllinni og markaðsvirðis þeirra er ávöxtunarkrafan sem gerð er til hlutabréfanna í samræmi við eðlilegt áhættuálag á óverðtryggð ríkisskuldabréf. Lækkun á gengi hlutabréfa Eimskips í kjölfar afkomu sem olli vonbrigðum á síðasta ári er vísbending um að þátttakendur á íslenskum hlutabréfamarkaði séu vel meðvitaðir um samband hagnaðar, markaðsvirðis hlutabréfa og eðlilega ávöxtunarkröfu sem gera á til þeirra.

Í dag voru hlutabréf Granda skráð í Kauphöll Íslands. Útboðsgengi bréfanna var að mínu mati töluvert hátt. Hæsta viðmiðunargengið var 31 króna á hlut en útboðsgengið var á endanum hins vegar 27,7 krónur fyrir hvern hlut í félaginu. Nú þegar hafa átt sér stað viðskipti á lægra gengi sem þýðir að þeir sem að fjárfestu í félaginu á útboðsgenginu hafa jafnvel nú þegar tapað á fjárfestingu sinni, sérstaklega ef þeir ætla sér að selja jafnóðum í félaginu, auk þess sem viðskiptakostnaður bætist við.

Það er því ekki gefið að þátttaka í útboðum hlutabréfa á Íslandi veiti auðfenginn hagnað. Íslenskur hlutabréfamarkaður er ekki alveg grandalaus.

MWM

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband