Hlutabréfabóla í námufyrirtækjum

Eitt af helstu ástæðum þess að fjármálabólur myndast er tilkoma nýrrar tækni. Sú framleiðniaukning (með beinum og óbeinum hætti) samhliða notkun á nýjum uppfinningum veita  oft sannarlega betri efnahagslega afkomu fyrir þjóðfélög. Það er ekki þar með sagt að slík tækni veiti fjárfestum góða ávöxtun nema þeim sem fyrstir eru í röðinni. Þeir sem síðar koma eru oft uppnumdir af tækifærunum sem eru fyrir hendi en verðleggja gjarnan slík tækifæri hærra en öll raunhæf möt ættu að gefa til kynna. Gömul dæmi eru sjóflutningar á 18. öldinni, járnbrautarlestir á 19. öldinni og aukin vélavæðing á þriðja áratug síðustu aldar. Nýlegt dæmi er síðan netbólan fyrir nokkrum árum síðan.

Eitt af einkennum netbólunnar var að margir töldu að með því að fjárfesta í mörgum slíkum fyrirtækjum hlyti velgegni eins þeirra að vega á móti tapi í fjárfestingum annarra fyrirtækja sem kæmu til með að leggja upp laupanna. Þetta varð því miður sjaldan niðurstaðan.

Ein af algengu skýringum þess að netbólan hafi verið byggð á sandi var sú að slík fyrirtæki voru ekki að skapa áþreifanleg verðmæti. Sú skýring hefur verið lítt áberandi síðustu ár, enda hefur velgegni fyrirtækja eins og google.com og facebook sannað hið gagnstæða, það er að virði þurfi ekki að vera nauðsynlega áþreifanlegt.

Oftar en ekki eru aðrir þættir sem eiga mikinn þátt í að mynda bólu á hlutbréfamörkuðum. Árið 1969 átti sér stað það sem kalla má æði í fjárfestingum námufyrirtækja í Ástralíu. Tímabundin velgegni eins fyrirtækis kveikti í brjósti sumra fjárfesta óraunhæfar vonir um áframhaldandi velgegni í þessu tiltekna fyrirtæki og einnig annarra slíkra fyrirtækja. Eftirspurn fjárfesta í námufyrirtækjum, sem skapa einungis afar áþreifanleg verðmæti, var slík að fá rök voru fyrir hendi um að rekstur fyrirtækjanna næði að standa undir eðlilegum ávöxtunarkröfum. Ekki ósvipað netbólunni hjaðnaði verðmæti námufyrirtækja mikið skömmu síðar þegar að hópur fjárfesta smám saman áttaði sig á því að væntingar í verðum hlutabréfanna voru lítt raunhæfar.

Því er það svo að litlu máli skiptir hvort um sé að ræða áþreifanleg verðmæti í verðmætasköpun fyrirtækja eða ekki þegar kemur að hugsanlegum fjármálabólum. Aftur á móti má segja að flest þau atriði sem einkenna atferlisfjármál (e. Behavioural Finance) hafi komið við sögu við myndun hlutabréfabólunnar í Ástralíu fyrir rúmum fjórum áratugum síðan. Hlutabréfabóla í námufyrirtækjum virðist vera fjarlægur möguleiki, en ekki er langt síðan að slíkt gerðist í jafn ólíklegum atvinnugeira á Íslandi þegar að verið var að meta banka og sparisjóð í Kauphöll Íslands á virði sem hefði að öllu jöfnu átt að hringja háværum viðvörunarbjöllum.

Fyrrum nemandi minn í atferlisfjármálum í Háskólanum í Reykjavík, Andrew Britten-Kelly, skrifaði afar athyglisverða grein nýlega um þetta efni þar sem að hann dregur fram ofangreinda liði og helstu hugtök atferlisfjármála tengd þessari bólu, sem átti sér stað í atvinnugeira sem almennt er talinn vera lítt spennandi. Andrew hefur veitt mér góðfúslegt leyfi til að birta hana opinberlega og er hægt að nálgast hana hérna: 

https://www.dropbox.com/s/v36515v3mtk920s/Andrew%20Britten-Kelly%20Pervasive%20Irrationality%20Behavioural%20Driven%20Asset%20Pricing%20Across%20Industry%20Sectors.docx

MWM

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband