N1 - Undarleg arðgreiðsla
3.3.2014 | 09:31
N1 tilkynnti í síðustu viku 1,65 milljarða króna arðgreiðslu sem greidd verður til hluthafa innan tíðar. Sú arðgreiðsla er um einum milljarði króna meira en hagnaður síðasta árs. Almennt greiða félög eins og N1 í kringum 20-40% af hagnaði ársins áður í arð. Þessi prósenta hjá N1 er 260%.
Skýringin sem er veitt er sú að fyrirtækið sé orðið "of vel" fjármagnað og vilji lækka eiginfjárhlutfallið (með öðrum orðum hækka hlutfall skulda á efnahagsreikningi sínum). Benda má á að fyrirtækið er með töluvert mikið af handbæru fé sem mætti nota til að greiða niður skuldir, sem N1 (ólíkt Högum til að mynda) kýs að gera í takmörkuðum mæli.
Þessi skýring er hugsanlega í lagi fyrir þá hluthafa sem fyrir eru. Maður veltir því þó fyrir sér af hverju þetta hafi ekki gerst fyrr, sérstaklega í ljósi þess að eiginfjárhlutfallið í árslok 2013 var hærra en það var árinu áður.
Þetta ætti að vera afar ofarlega í huga þeirra hluthafa sem keyptu hlut í félaginu fyrir aðeins nokkrum vikum síðan. Markaðsvirði félagsins var í útboðinu 15 milljarða króna sem þýðir að ríflega ein af hverjum 10 krónum sem keypt voru í útboðinu er nú verið að skila til baka í formi arðgreiðslu. Það er ekki þó svo að sú króna sem greidd er til baka komi öllum nýjum hluthöfum vel. Hjá mörgum verður tekinn 20% fjármagnstekjuskattur af þeirri krónu sem þýðir að einungis 0,8 krónur koma nettó til baka.
Nær hefði verið að kaupa eigin bréf fyrir þessa upphæð (á bilinu einn milljarður króna upp í 1,65 milljarða króna) sem gæfi nýjum hluthöfum þá hærri ávöxtun eigin fjár í framtíðinni.
MWM
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.