Erlend fjárfesting, gjaldeyrishöft, bólumyndun og verðmætasköpun
10.10.2013 | 09:29
Mikið hefur verið fjallað um bólumyndun á Íslandi undanfarna mánuði. Sökudólgurinn er almennt talinn vera gjaldeyrishöft. Þar sem að íslenskt fjármagn er læst inni þykir sumum ljóst að slíkt leiði óhjákvæmilega til þess að of margar krónur leiti eftir fjárfestingu í haldbærum eignum og verðbréfum. Afleiðingarnar væru misvægi í eðlilegu framboði fjárfestingakosta og eftirspurn of margra króna þannig að fjáreignir verði metin smám saman á of háu verði.
Sé litið á ávöxtunarkröfu íslenskra óverðtryggðra skuldabréfa þá er hún hér um bil sú sama og hún hefur verið sögulega í Bandaríkjunum. Í dag er óverðtryggð ávöxtunarkrafa íslenskra ríkistryggðra skuldabréfa töluvert hins vegar hærri en í Bandaríkjunum. Hluti skýringarinnar er verðbólga og því er eðlilegt að bera saman verðtryggð ríkisskuldabréf. Innlend verðtryggð ríkistryggð skuldabréf veita miklu betri ávöxtun hérlendis en í Bandaríkjunum. Hér er ávöxtunin umfram verðbólgu í kringum 2,5% en í Bandaríkjunum hefur ávöxtunin í styttri flokkum verið jafnvel neikvæð en löng bréf eru einungis með rúmlega 1% ávöxtunarkröfu. Eðlilegt er að innlend ávöxtunarkrafa sé hærri vegna þess að innlent lánshæfismat er lakara en til dæmis í Bandaríkjunum. Mismunurinn á ávöxtunarkröfunni ber þó ekki með sér að skuldabréf með ríkistryggingu á Íslandi beri með sér bólueinkenni.
Sé litið til hlutabréfamarkaðarins (sem á Íslandi hefur reyndar aðeins örfá félög skráð í Kauphöllinni) þá er verðlagning hlutabréfa miðað við núverandi hagnað á tiltölulega eðlilegum slóðum. Er hún í svipuðum takti og hjá óverðtryggðum skuldabréfum að viðbættu eðlilegu áhættuálagi. Núverandi hagnaður þarf að veitta töluvert ranga mynd, sem gefur tilefni til of mikillar bjartsýni, til að hægt sé að tala um bólueinkenni á hlutabréfamarkaði. Að auki heyri ég fólk oft tala um að ekki eigi að koma nálægt íslenskum hlutabréfum. Reynslan segir mér að svo lengi sem maður heyrir slíkar raddir öðru hvoru þá ríki ekki mikið ójafnvægi í verðmyndun hlutabréfa vegna of mikillar bjartsýni innan samfélagsins.
Áhyggjur um bólumyndun hafa því ekki enn komið fram í verðlagningu verðbréfa en þar með er ekki sagt að slíkt geti ekki átt sér stað á næstu misserum. Rökin fyrir því að lífeyrissjóðir fái að fjárfesta á erlendri grundu eiga því rétt á sér. Auk þess flokkast erlendar fjárfestingar undir eðlilega áhættudreifingu; þegar að krónan féll í hruninu þá hefði til dæmis tap íslenskra lífeyrissjóða verið takmarkað vegna innbyggðrar tryggingar á innlendum áföllum með eignarsafni tengt erlendum myntum.
Það er, hins vegar, undarlegt að fylgjast með þessari umræðu á sama tíma og verið er að hamra á því að það vanti erlenda fjárfestingu í landið. Bent hefur verið réttilega á að hér hafi erlend fjárfesting dregist mikið saman. Hollt er að fá erlent fjármagn til landsins; því fylgir meira aðhald og þekking gæti fengist með slíkum fjárfestingum. Það eru þó fjölmörg dæmi um að erlendar fjárfestingar hafi á alþjóðavísu leitt til þess þjóðir hafi verið skildar eftir með sviðna jörð þegar búið var að tæma auðlindir á þeim slóðum með takmörkuðum áhuga á velferð fólks til lengri tíma á þeim svæðum.
Þversögnin felst í því að á sama tíma og verið er að fjalla um óhjákvæmilega bólumyndun vegna gjaldeyrishafta þá heyrast iðulega raddir um að það þurfi meira af erlendum fjárfestingum, og er erlendum fjárfestum í skjóli gjaldeyrishafta jafnvel veittur afsláttur gagnvart íslenskum fjárfestum á kostnað almennings.
Við vinnum okkur ekki úr núverandi ástandi þar sem að nauðsynlegt sé að skapa gjaldeyristekjur með Excel æfingum eða boði og bönnum. Skapa þarf vettvang þar sem að íslenskir lífeyrissjóðir og fjárfestar geti fjárfest í atvinnugeirum sem skapa verðmæti á alþjóðavísu. Aðeins þannig er hægt að vinna okkur úr núverandi gjaldeyrisfjötrum.
MWM
While the bankers all get their bonuses
I'll just get along with what I've got
Watching the weeds in the garden
Putting my feet up a lot
Pet Shop Boys - Love is a Bourgeious Construct (2013)
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning