Má Wolfgang mixa?

Þú hefur tvo valkosti

 

Valkostur 1. er að það séu 25% líkur á því að þú hagnist 3.000 krónur

 

 Valkostur 2. er að það séu 20% líkur á því að þú hagnist um 4.000 krónur en á móti kemur að það eru 80% líkur á því að þú fáir ekkert.

Hvorn kostinn velur þú? (sjá svar að neðan)

 

Svarið:

 

Í könnunum kemur fram að um það bil 2 af hverjum 3 velja seinni kostinn, það er að það séu 20% líkur á því að fá 4.000 krónur. Meðaltalið er 800 krónur (4.000 sinnum 0,2). Þetta er rökrétt því að fyrsti kosturinn veitir 25% líkur á því að fá 3.000 krónur, en meðaltalið af því eru 750 krónur (3.000 sinnum 0,25). Fólk fær að meðaltali meira með því að vera rökrétt og velja kost 2.

 

Næsta spurning:

 

 Valkostur 1. er að það séu 100% líkur á því að þú hagnist 3.000 krónur

 

 Valkostur 2. er að það séu 80% líkur á því að þú hagnist um 4.000 krónur en á móti kemur að það eru 20% líkur á því að þú fáir ekkert.

Hvorn kostinn velur þú?

Svar:

.....

.....

.....

.....

.....

Það er í raun ekkert rétt svar við þessu.  Svangur maður sem á ekki pening fyrir mat ætti augljóslega að velja 1. valkost.  Flest okkar ættu aftur á móti að velja kost 2 því að miðað við einföld líkindi, eins og lýst er að ofan, ætti manneskja að meðaltali að fá 3.200 krónur (4.000 sinnum 0,8).  Hinn kosturinn veitir einungis 3.000 krónur.

Það sem að flestir velja, aftur á móti, er valkostur 1. Ástæðan er sú að spurningin er lögð fram sem hagnaður í hendi, sem hægt er síðan að tapa. Fólk er almennt áhættufælið þegar kemur að fjármálum og metur almennt tapaða krónu meira en grædda krónu. Auk þess skiptir hér orðið máli að tveir kostir eru í boði og annar hefur óvissu innbyggða í sér. Þetta á sérstaklega við þegar að spurningin er lögð með þeim hætti að verið sé að ræða hagnað. Í þessu tilviki segja því um 4 af hverjum 5 manneskjum að þær vilji fá 3.000 krónur án áhættu í hús.

Frá líkindasjónarmiði er um sömu tvær spurningar að ræða, nema hvað í seinna tilfellinu er búið að margfalda líkurnar með fjórum. Munurinn felst í því að í fyrra skiptið virðast líkurnar í hugum okkar vera svipaðar, 20% og 25%. Í seinna tilvikinu er aftur á móti 80% líkur bornar saman við 100% líkur, það er töluverð vissa og algjör vissa.

 

Þetta er hugsanleg útskýring á því að verðbréf sem talinn eru vera afar traust og líkur á endurgreiðslu því allt að 100%, veita almennt lakari ávöxtun en verðbréf sem eru töluvert örugg en hafa þó minna öryggi í ávöxtun. Ólíkt almennri skoðun þá veita afar ótraust verðbréf lakari ávöxtun en þau sem hafa einhverja óvissu varðandi framtíðar tekjustreymi. Lotterís áhrif eru talin hafa áhrif á væntingar fjárfesta í þeim efnum.

 

Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég kenni í atferlisfjármálum. Fólk lærir þar að sjá mismunandi hliðar á málum, meðal annars hvernig fólk stjórnast af því í fjármálum hvernig mál eru lögð fram.

 

Nýlega lenti ég í aðstæðum þar sem að tvær hliðar komu fram í ákveðnu máli. Ég var plötusnúður á diskóteki* þar sem að stórkostleg stemmning ríkti. Var mikið af þýskum ferðamönnum á svæðinu. Til mín kom kunningi minn með Þjóðverja sér við hlið sem hann virtist þekkja ágætlega. Vinur minn sagði hátt og hvellt: Má Wolfgang mixa?

 

Ég vissi ekki hvað hann átti við.

 

MWM

 

*OK, þetta er bara saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband