Eimskip - uppgjör 2F

Eimskip birti í síðustu viku annað ársfjórðungsuppgjör (2F) félagsins. Það lofaði ekki góðu að fréttatilkynningin sem átti að koma eftir lok markaða á fimmtudegi birtist ekki fyrr en daginn eftir og hófst á þessum orðum: „Efnahagsástandið á Íslandi var krefjandi á öðrum ársfjórðungi.“ Í framhaldi af því kom fram að samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hafi 4,8% samdráttur átt sér stað í innfluttu magni til landsins og 0,5% samdráttur í útflutningi fyrstu sex mánuði ársins.

Hér strax var ljóst að tölur fjórðungsins væru í lakari kantinum. Fyrir hrun var vandamál skipafélaga það að verið var að flytja til landsins gífurlegt magn af vörum en útflutningur var töluvert minni. Þetta þýddi að hingað komu troðfullir gámar en fóru til baka hálftómir. Nú er öldin önnur og dæmið hefur snúist við. Með meiri mismun frá jafnvægispunkti inn- og útflutnings er ljóst að skipafélög almennt neyðast til að flytja gáma á milli landa hálftóma sem dregur úr skilvirkni starfseminnar. Ekki fæ ég séð að slíkar ytri aðstæður kæmu niður á afkomu Eimskips.

Þrátt fyrir að Eimskip næði þrátt fyrir almennan samdrátt að auka veltu samanborið við 2F þá dróst framlegð eðlilega saman, eða um 20%. Hagnaður var þó ekki nema um það bil fjórðungur af hagnaði 2F ársins 2012. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld dregst þó ekki jafn mikið saman,eða um fjórðung.

6M

Sé litið til samanburðar á fyrstu sex mánuðum ársins eru tölurnar ekki jafn slæmar og má jafnvel segja að undir erfiðum aðstæðum sé afkoman meira en vel viðunandi. Veltan eykst um 5% á milli tímabila og framlegð dregst einungis saman um 10%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og skatta  (EBIT) dróst einungis saman um 10% en það má að einhverju leyti rekja til þess að hluti af skipum félagsins hafa verið afskrifuð niður í hrakvirði sem dregur úr bókfærðri afskriftarþörf (eða bókfærðum kostnaði, eftir því sem litið er á málið).

Hagnaður fyrir tekjuskatt fyrir fyrstu sex mánuði ársins eykst því lítillega, þó undir raunvirði, miðað við árið 2012.

Gengi hlutabréfa Eimskips

Tölurnar ollu vonbrigðum hjá markaðsaðilum og lækkuðu hlutabréf félagsins í Kauphöllinni um 4%. Er gengið eftir þetta í kringum 240 krónur fyrir hvern hlut. Miðað við það gengi er V/H hlutfall félagsins miðað við uppgjör síðustu 4 ársfjórðunga rúmlega 30. Það þýðir að ávöxtunarkrafan gerð til hlutabréfa þess miðað við þau uppgjör rétt rúmlega 3%. Óverðtryggð ríkisbréf veita tvöfalt hærri ávöxtun.

Þegar að Eimskip var skráð á var mikið fjallað um það að það væri innbyggð gjaldeyrisvörn í rekstri félagsins. Ef íslenska krónan myndi veikjast þá myndi það auka hagnað félagsins því helstu tekjur þess eru í erlendum gjaldmiðlum. Ég spyr á móti, ef íslenska krónan veikist, eykst ekki einfaldlega þetta misvægi í inn- og útflutningi ? Þó svo að tekjurnar hugsanlega aukist, það gæti hagnaðurinn þurrkast út og ekkert væri eftir til skiptanna sama mikið tekjustreymið hafi aukist í íslenskum krónum talið.

Þegar að Eimskip var skráð á markað á genginu 208 taldi ég að eðlilegt gengi félagsins væri í kringum 180-190. Notaði ég bæði frekar lága ávöxtunarkröfu en einnig lágan vöxt. Skrifaði ég meðal annars:

Hagnaður þarf því að aukast töluvert til að mæta þeirri ávöxtunarkröfu sem er innbyggð í gengi bréfanna. Slíkt gæti hæglega átt sér stað ef efnahagur á alþjóðavettvangi réttir úr kútnum. Þetta er því ekki alslæm fjárfesting á þessu gengi - uppbygging efnahagsreiknings félagsins og rekstur þess eru til dæmis á traustum grunni - en til að ég færi að telja þetta vera eftirsótta fjárfestingu hefði gengið þurft að vera töluvert lægra.

Skoðun mín hefur ekki breyst varðandi gengi á hlutabréfum Eimskips. Þau eru að mínu mati enn hátt metin. Ef ytri aðstæður lagast gæti mat mitt breyst en fram að því held ég mig við fyrra mat. Það er því ekki rekstur Eimskips sem er í ólagi, ef ólag mætti kalla, heldur einfaldlega það að of miklar væntingar eru innbyggðar í gengi hlutabréfa þess.

MWM

http://marmixa.blog.is/blog/marmixa/entry/1266014/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband