Margin Call

Það er ekki oft sem að fjármálaheimurinn er miðpunktur kvikmynda sem rata í almenn kvikmyndahús. Wall Street er líklegast þekktasta myndin en hún sló í gegn árið 1987, aðeins rúmum mánuði eftir mesta fall hlutabréfa á einum degi í sögu hlutabréfamarkaða Bandaríkjanna. Michael Douglas lék þar þekktustu sögupersónu fjármálamarkaða, Gordon Gekko, og gerði setninguna Greed is Good ódauðlega (hún er að stórum hluta tekin frá ræðum Ivan Boesky sem var á sama tíma í fangelsi vegna innherjasvika). 

 

Wall Street film.jpg

Árið 2010 var gert framhald af Wall Street sem hét Money Never Sleeps. Hún er arfaslöpp og hefði betur verið ógerð. Önnur mynd sem ég hef ekki séð en þótti einnig vera afar slöpp var Bonfire of the Vanities. Hún var frumsýnd tæpum þremur árum eftir Wall Street en fékk aðeins brot af þeirri aðsókn sem Wall Street naut þrátt fyrir að stórstjörnur þess tíma léku í henni. Þetta auglýsingarplakat lítur ekki vel út og var auk þess nokkuð augljóslega barn síns tíma. Hvað finnst Bruce Willis til dæmis svona voðalega sniðugt?

Bonfire of the vanities movie poster.jpg

Nýlega kom önnur mynd sem snýst um Wall Street. Margin Call heitir hún og skartar flottum leikurum eins og Kevin Spacey (sem nýlega hefur hrifið landann með leik sínum í sjónvarpsþáttaröðinni House of Cards), Jeremy Irons, Demi Moore, Stanley Tucci og Zachary Quinto.

Wall Street fjallaði fyrst og fremst um einstakling sem endurspeglaði umhverfi græðgis á Wall Street. Margin Call er dýpri að sumu leyti. Hér er sjónum beint að því að þegar að á reynir þá eru það peningar sem ráða för, aðrir hlutir eru látnir víkja til hliðar. Í þessu umhverfi skipta peningar öllu máli. Einstaklingurinn skiptir ekki máli.

Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að einn af yfirmönnum áhættustýringar er rekinn eftir margra ára veru hjá fjármálafyrirtæki. Þrátt fyrir leiðinlega uppsögn er honum enn annt um fyrirtækið og vill að einhver klári verkefni sem hann hefur verið að vinna í sem hann telur vera afar mikilvægt. Á leiðinni út réttir hann besta mann sviðsins í útreikningum afleiða tölvukubb sem inniheldur upplýsingarnar um verkefnið og biður hann um að klára það sem allra fyrst. Okkar besti maður klárar það á nokkrum klukkutímum og í ljós kemur að fyrirtækið er á góðri leið með að fara á hausinn vegna fjárfestinga sem áttu ekki að geta klikkað á þúsund árum samkvæmt tölfræðinni en voru á þeim tímapunkti einmitt að gera slíkt. Atburðarrásin næstu 24 klukkutímanna verður æsileg í framhaldinu.

Margt í handritinu svipar til atburða sem leiddu til þess að Long-Term Capital Management féll árið 1998 og gerð eru feiknagóð skil í bókinni When Genius Failed eftir Roger Lowenstein. Þar á bæ virtust menn treysta tölfræðinni frá a-ö sem leiddi til gírun í fjárfestingum sem í það minnsta eftir á að hyggja voru glórulausar og á þetta ímyndaða fjármálafyrirtæki að hafa gert eitthvað svipað. Sagan á augljóslega að eiga sér stað skömmu áður en Lehman Brothers féllu haustið 2008. Þó svo að svipaðar aðstæður að sömu leyti hafi verið komnar upp árið 2008 og ríktu tíu árum áður þá var samt munur þar á. Því er vel lýst í bókinni The Big Short eftir Michael Lewis, en þar kemur fram að lengi vel áttuðu flestir sig ekki á þeirri áhættu og ekki síður því tapi sem var þegar búið að eiga sér stað á húsnæðislánavafningum. Menn áttuðu sig þó ekki á því augabragði eins og lýst er í myndinni heldur voru menn smám saman að gera sig grein fyrir slæmri stöðu. Hver sem fer yfir greinar um markaði árin 2007 og 2008 sér að margir voru farnir að vara við áhættunni af slíkum vafningum.

Það má vera að hægt sé að flokka ofangreint tal undir smámunasemi. Myndin lýsir vel því umhverfi fjármálaheimsins sem lagt er upp með. Yfirmaður fyrirtækisins, afar vel leikinn af Jeremy Irons, tekur ákvarðanir sem þjóna fyrirtækinu best þó svo að þær stríði gegn nánast öllu því sem flestir telja sé "rétt". Á meðan að hörðustu aðilar eru miður sín yfir því hvað sé gert er hann sallarólegur. Honum tekst manna best að sjá hvað skipti fyrirtækinu máli og hefur litlar áhyggjur af því hvað slíkt kosti frá mörgum sjónarmiðum. Ein setning í myndinni, I need the money, undirstrikar stöðu margra þeirra persóna sem fram koma þar fram.

Því mæli ég með Margin Call fyrir alla sem hafa áhuga á fjármálum. Aðrir hafa kannski síður áhuga á myndinni en ef til vill trufla smáatriði þann hópinn síður.

MWM

Fram vann bikar um helgina. Þeir höfðu ekki unnið bikar í fótbolta síðan 1990, sama ár og Bonfire of the Vanities var frumsýnd. Verandi Hafnfirðingur þá held ég með FH og Haukum en óska engu að síður Frömurum innilega til hamingju með titilinn. Læt fylgja með hlekk að stuðningsmannalagi þeirra. http://www.youtube.com/watch?v=oCEcHAWuMCU&feature=c4-overview&list=UU_Pk82bOVANhApquRhwflSQ

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband