Vodafone uppgjör

Vodafone birtu 2Q uppgjör sitt í gær. Hagnaður annars ársfjórðungs nam 207 milljónum króna og jókst um 138% milli ára. Þetta kunni verðbréfamarkaðurinn á Íslandi að meta og hækkaði gengi bréfanna um rúmlega 2% í dag en hafði um tíma hækkað í kringum 4%.

Þó svo að tölurnar séu betri en á fyrsta ársfjórðungi, þá sannfæra þessar tölur mig ekki um að gengi bréfanna endurspegli núvirtan framtíðarhagnað fyrirtækisins. Fram kemur í fréttatilkynningu Vodafone að seldar vörur og þjónusta hafi lækkað á milli ára, bæði ef miðað er við annan ársfjórðung hvers árs og fyrstu sex mánuði ársins. Veltan er því ekki einungis að dragast saman í krónum talið heldur enn meira í raunkrónum talið því að óbreytt velta að raungildi hefði samt hækkað tölurnar í rekstrarreikningnum, sem nemur verðbólgu. Samdráttur í veltu ef bornir eru saman 2Q ársfjórðungar áranna 2012 og 2013 er því töluverður, eða 4% að nafnvirði en um 8% að raunvirði.

Kostnaðarverð hefur aftur á móti lækkað sem skýrir ögn betri framlegð. Nú veit ég þó ekki hvort að slíkt hafi verið vegna skerðingar í þjónustu eða hvort að betur sé unnið úr þeim starfskröftum sem eru fyrir í Vodafone. Vonandi er það betri nýting því skert þjónustu gæti orðið til enn frekari samdráttar í veltu Vodafone. Þetta gerir það að verkum að framlegðin hefur aukist á öðrum ársfjórðungi en hún hefur samt dregist saman fyrstu sex mánuði ársins.

Fjármagnsgjöld minnka og munar þar töluvert miklu. Ef þau minnka enn frekar gæti slíkt haft töluvert jákvæð áhrif í rekstri sem virðist vera í járnum.

Vegna þessa er ég efins um að kaup í hlutabréfum Vodafone sé góður kostur þrátt fyrir að gengi bréfanna hafi lækkað mikið undanfarna mánuði. Ef félagið nær að auka veltu á nýjan leik og halda samhliða því kostnaði í skefjum gæti skoðun mín breyst.

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Guðmundsson

flott og einföld samantekt hjá þér - endilega halda þessu áfram

Rafn Guðmundsson, 13.8.2013 kl. 20:17

2 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Takk Rafn, var að sjá þetta núna, meira en 2 mán. síðar!

Már Wolfgang Mixa, 24.10.2013 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband