Orðræða og kröfuhafar ÍLS

Oft er athyglisvert að fylgjast með orðræðu í tengslum við fjármál. Umræðan er stundum á þá vegu að það felist til dæmis meiri áhætta í að kaupa ekki hlutabréf frekar en að geyma pening inná bankabók (það eru reyndar til dæmi um ákkúrat slíkt), aðeins til að þróast yfir í þá áttina að hlutabréfakaup séu almennt tóm vitleysa (þau er sjaldan slíkt að ákveðnu marki). Stundum breytist þessi umræða smám saman; hjöðnun netbólunnar var gott dæmi um slíka þróun, en umskipti í orðræðu varðandi hlutabréf áttu sér stað hins vegar nánast á einni nóttu í Hruninu þegar að sparifé margra fuðraði upp á örfáum augnablikum.

Almennt breytist orðræða tengdum þáttum í fjármálum smám saman. Síðasta vika var afar athyglisverð varðandi orðræðu fjármála. Frétt sem lítið bar á birtist í fjölmiðlum þar sem að fram kom að gert væri ráð fyrir því að kröfuhöfum Íbúðalánasjóðs (ÍLS) verði kynntar skilmálabreytingar á útgefnum skuldabréfum sjóðsins í sumar. Framkvæmdastjóri hjá lífeyrissjóði sagðist gera ráð fyrir þessum breytingum í sumar og stjórnarmaður ÍLS staðfesti að slíkar tillögur hefðu verið ræddar innan stjórnar sjóðsins.

Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá að eigendur skuldabréfa sjóðsins væru ekki lengur venjulegir skuldabréfaeigendur heldur kröfuhafar.* Kröfuhafar eru almennt skilgreindir sem aðilar sem hafa lögvarna heimild til að krefjast þess af öðrum aðila (skuldara) að gera eitthvað eða láti eitthvað ógert. Eigendur skuldabréfa gera almennt ráð fyrir greiðslu og eiga því almenna kröfu um greiðslu, en þeir breytast í kröfuhafa þegar að skuldari lendir í vandræðum með að standa í skilum við skuldbindingar sínar. Oft er sagt að skuldabréfaeigendur ráði engu svo lengi sem skuldarar (fyrirtæki) standa í skilum, en þegar að skuldarar geta ekki staðið við skuldbindingar sínar þá breytast skuldabréfaeigendur í kröfuhafa og taki yfir rekstur fyrirtækjanna. Þetta er orðin almenn vitneskja í kjölfar Hrunsins á Íslandi þegar að kröfuhafar tóku yfir rekstur banka.

Snemma daginn eftir að ofangreind fréttist birtist komu yfirlýsingar frá starfsmanni lífeyrissjóðsins sem sagði að orð sín hefðu verið tekin úr samhengi og stjórnarmanni ÍLS sem ítrekaði að ekkert nýtt væri að eiga sér stað; skilmálum útgefinna skuldabréfa verður ekki breytt nema með samkomulagi við eigendur þeirra. Samkvæmt þessu hafði blaðamaðurinn (sami blaðamaður hjá Bloomberg í öllum tilvikum) fyrir einhvern misskilning breytt skuldabréfaeigendum ÍLS í kröfuhafa á augabragði vegna ónákvæmni í vinnubrögðum.

Á föstudaginn birtist svo viðtal við Bjarna Benediktsson undir fyrirsögninni á RÚV: Vonar að kröfuhafar verði sveigjanlegir, þar sem enn á nýjan leik er vitnað í frétt af Bloomberg fréttaveitunni. Þegar að fjármálaráðherra tekur þannig til orða á öðrum fréttamiðli er augljóst í huga margra að þetta mál er að fara í farveg sem er óhagstætt eigendum ÍLS skuldabréfa, sem eru farnir að vera skilgreindir óþægilega oft sem kröfuhafar.

Þetta var, andstætt því sem stjórnarmaður ÍLS sagði, augljóslega eitthvað nýtt því í framhaldi af þessari orðræðu fjármálaráðherrans hækkaði ávöxtunarkrafa ÍLS skuldabréfa í þremur helstu flokkum sjóðsins að meðaltali um 15 bps (0,15%) í Kauphöll Íslands (ég er vel að merkja að tala um ávöxtunarkröfu, ekki verð; skuldabréf lækka í virði þegar að ávöxtunarkrafa hækkar). Slík breyting er afar sjaldgæf og gefur til kynna að fjárfestar eru að endurmeta virði skuldabréfa ÍLS og er það að lækka töluvert mikið.

Þetta er dýrkeypt orðræða. Mörg lán bera breytilega vexti. Öll ný lán taka mið af ávöxtunarkröfu á markaði. Þessi lán hækkuðu 0,15% síðastliðinn föstudag vegna óvissu sem tengist því að verið er að endurskilgreina eigendur ÍLS skuldabréfa sem kröfuhafa í stað skuldabréfaeigenda. Segja má að árlegur vaxtakostnaður íslenskrar fjölskyldu sem skuldar 20 milljónir með breytilega vexti á húsnæðislánum sínum hækkaði vegna þessa um 30 þúsund krónur.

Auk þess verður dýrara að fjármagna húsnæðiskaup á Íslandi í framtíðinni. Raunvaxtastig hérlendis er allt of hátt og ekki er við bætandi frekari hækkun á ávöxtunarkröfu ÍLS bréfa, sem Bjarni ítrekaði væru með ríkisábyrgð. Því þarf að skýra sem fyrst hvaða skilmálabreytingar sé verið að líta til og vanda valið í orðræðu varðandi skuldabréfaeigendur ÍLS bréfa. Annars gæti óvönduð orðræða skapað snjóbolta í framtíðarvaxtakostnaði húsnæðislána sem margar fjölskyldur ráða illa við.

MWM

*Það hafði reyndar birst viðtal við Eygló Harðardóttur í lok maí þar sem að slík skilgreining var notuð en ég, og líklegast flestir, taldi að um ritvillu væri að ræða.

http://www.vb.is/frettir/84735/

http://www.visir.is/ekkert-nytt-i-malinu-segir-ils/article/2013130609579 

http://www.vb.is/frettir/84525/

http://www.ruv.is/frett/vonar-ad-krofuhafar-verdi-sveigjanlegir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband