Verðtryggingarhugmyndir Sjálfstæðisflokksins ofl.

Nýlega kom Sjálfstæðisflokkurinn fram með efnahagstillögur þar sem að húsnæðislánamál eru meðal annars á dagskrá. Eins og hjá öllum flokkum er verðtrygging ofarlega á baugi í þeim málum. Sjálfstæðismenn vilja draga úr vægi verðtryggingar en hvernig gera eigi slíkt er ekki útskýrt með markvissum hætti. Það er einföld leið til þess og hún er að íbúðalán verði ekki veitt að fullu með verðtryggðum lánum heldur verði ákveðið hlutfall ávallt í óverðtryggðum lánum, til dæmis ekki lægra en 30%. Þar sem að óverðtryggð lán fylgja almennt vaxtaþróun þá er líka eðlilegt að fólk geti ekki tekið óverðtryggð lán því að ef vaxtastig hækkar - fer til dæmis úr 7% í 14% - þá tvöfaldast greiðslubyrði fólks vegna vaxtakostnaðar og ljóst er að margir myndu ekki ráða við slíkt. Það er með ólíkindum að þegar að kemur að fjárfestingum þá er almennt viðurkennt að dreifa eigi áhættu en þegar það kemur að hinni hliðinni, það er að taka lán, þá virðast fáir hafa áhuga á slíkri áhættudreifingu og vilja einungis taka eina tegund lána.*

Sjálfstæðisflokkurinn vill að viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs geti umbreytt verðtryggð lán sín í óverðtryggð lán. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða árangri það eigi að skila. Gylfi Arnbjörnsson benti nýlega á að óverðtryggðir vextir hafi síðustu 20 ár verið 1-3% hærri en vaxtakostnaður verðtryggðra lána. Gylfi bendir á að það er hár vaxtakostnaður sem er að draga úr Íslendingum allan lífsneista. Því væri eðlilegra að benda á hvernig hægt sé að lækka vaxtakostnað, sem er meðal stefnumarkmiða Sjálfsstæðismanna.

Ein leið sem Ingvi Örn Kristinsson bendir á er að lækka lánshlutföll. Með því lendir fólk síður í greiðsluerfiðleikum og þurfa fjármálastofnanir því síður að afskrifa lán, en auknar afskriftir leiða einfaldlega til hærri vaxtakostnaðar fyrir alla hina til að dekka tapið sem hlýst af slíkum afskriftum. Samhliða því hefur enn á ný komið fram hugmynd um að koma hér á landi á svokölluð lyklalög, sem tryggja það að hægt sé að "skila lyklunum" ef virði húsnæðis fari undir markaðsvirði og einstaklingar þurfi að greiða mismuninn. Þetta er liður númer 7 í tillögum Sjálfsstæðismanna: sjá hér - http://2013.xd.is/. Það er mér hulin ráðgáta af hverju þetta einfalda mál hafi ekki orðið að lögum fyrir löngu síðan, þetta getur vart verið flókið mál. Slík lög draga úr vilja lánastofnanna að veita óábyrg lán og er ég til dæmis sannfærður um að lán í erlendri mynt hefðu aldrei verið veitt af slík lög hefðu verið ríkjandi misserin fyrir Hrun.

Eitt sem þyrfti einnig að gera, en yrði óvinsælt, væri að stytta lánstíma lána. 40 ára lán, í nánast sama hvaða lánafyrirkomulagi sem er, gerir það að verkum að eignamyndum fólks er hér um bil engin í mörg ár. Skiptir þá engu hvort um sé að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán. Að mínu mati ætti hámarks lán óverðtryggðra lána að vera 25 ár og verðtryggðra lána ekki lengur en 20 ár (höfuðstóll verðtryggðra lána greiðist hægar niður nema ef verðbólguhjöðnun eigi sér stað). Þetta er einföld staðreynd.

Eitt þykir mér afar jákvætt varðandi tillögur Sjálfsstæðisflokksins er að fólk geti nýtt sér séreignasparnað til að greiða niður húsnæðislán. Þau rök hafa heyrst að þá eigi fólk minni ráðstöfunartekjur síðar á ævinni en svo lengi sem fólk fer ekki að eyða þeim mun meira í aðra hluti af því að það skuldar svo lítið í húsnæðinu þá jafnast það út því að það skuldar einfaldlega minna þegar það kemst á ellilífeyrisaldur. Rétt er að taka fram að þetta er erfitt fyrir fólk sem hefur skuldbundið sig í tryggingarsöfnun með séreign sína.

Umræða um alla þessa ofangreinda þætti auk kosti og galla verðtryggingar (og einnig óverðtryggðra lána) er í skýrslu sem ég skrifaði fyrir VR árið 2010. Hægt er að nálgast hana á þessari slóð - http://www.vr.is/Uploads/VR/utgefid_efni_vr/Verdtrygging%20fjarskuldbindinga.pdf

Auk þess fjallaði ég um kosti og galla mismunandi húsnæðislána í Speglinum nýlega, sem var hluti af umræðu þar sem meðal annars er talað við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins. Hægt er að hlusta á viðtalið á þessari slóð - http://www.ruv.is/frett/verdtrygging

MWM

* Það eru margir ósammála þessum rökum mínum.

Kynning Gylfa - http://www.sff.is/sites/default/files/gylfi_arnbjornsson_erindi_a_radstefnu_um_fasteignalan.pdf

Kynning Ingva Arnar - http://www.sff.is/sites/default/files/yngvi_orn_kristinsson_-erindi_a_radstefnu_um_framtid_fasteignalana.pdf

Nýleg frétt varðandi lyklalögin - http://www.vb.is/frettir/82566/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Sæll Már.Ég er ekki sterkur á svellinu þegar kemur að fjármálapólitík.En felst ekki afnám verðtryggingar í því að afnema vísitölurnar.Að draga úr vægi verðtryggingar er eitthvað sem ég skil ekki.Annaðhvort virka þessar vísitölur eða ekki.Að vera með Óverðtryggð lán í umhverfi þar sem verðtrygging er til staðar finnst mér svipað eins og bílasalan sem selur aðeins eina tegund af Benz en bíður upp á að fólk borgi annaðhvort 5 millur eða 6 millur fyrir gripinn.Hvort viltu? Bankinn hlýtur að bæta sér upp Óverðtrygginguna með öðrum hætti-hærri vöxtum.Í löndum þar sem engin verðtrygging er eru bara óverðtryggð lán-að sjálfsögðu.Vextina semurðu um -færð tilboð.Fastgengi með möguleika á leiðréttingu á nokkurra ára fresti myndi virka betur til að slá á verðbólgu og halda kaupmætti í skefjum.Er ég á einhverjum villigötum í þessum þankagangi?

Jósef Smári Ásmundsson, 8.4.2013 kl. 06:04

2 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Sæll Jósef, rannsóknir sýna að óverðtryggðir vextir sveiflast í takti við verðbólgu. Það er verðbólgan sem knýr áfram hækkun eða lækkun óverðtryggðra vaxta, svona almennt. Veit ekki hvort að fastgengi myndi virka betur, en slíkt fyrirkomulag gæti virkað innan ákveðnina marka. Fastgengisstefnur hafa þó oft endað með ósköpum (til dæmis hluti Asíu og Argentína 1990s) en einhverra hluta vegna er skautað framhjá þeim staðreyndum þegar fjallað er um þá hugmynd. Eins og með margt annað, engar patent lausnir.

Már Wolfgang Mixa, 24.10.2013 kl. 08:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband