Aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingabanka
6.9.2012 | 11:59
Alþingi ályktar að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að skipa nefnd er endurskoði skipan bankastarfsemi í landinu með það að markmiði að lágmarka áhættuna af áföllum í rekstri banka fyrir þjóðarbúið, með aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Nefndin skoði stefnumótun nágrannaríkja í þessu sambandi, ljúki störfum og skili tillögum sínum fyrir 1. október 2012.
Ofangreindur texti er upphaf tillögu til þingsályktunar um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka sem lögð var fram í vor. Hana er hægt að lesa í heild sinni hér - http://www.althingi.is/altext/140/s/1010.html. Neðst í skjalinu er fylgiskjal III þar sem að vísað er í grein mína sem birtist í Morgunblaðinu í lok febrúar árið 2009, eða fyrir 3 og hálfu ári síðan, þar sem ég kem með rök fyrir aðskilnaði. Þau rök eru enn í fullu gildi.
Eftir furðu mikla þögn um þetta brýna málefni létu viðbrögðin ekki á sig standa við þessa tillögu, almennt hjá aðilum sem hafa hagsmuna að gæta. Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingabanka, skrifaði í grein í lok júní þar sem að hann segir meðal annars: Standi hefðbundnir viðskiptabankar líka í fjárfestingabankastarfsemi þá eru þeir líklegir til að vera með stærri efnahagsreikning og dýrara verður að koma þeim til bjargar og bætir við að vegna þess er betra að hafa fjárfestingabankastarfsemi aðskilda frá almennri innlánastarfsemi með óbeinni ríkisábyrgð. Sem forstjóri fjárfestingabanka hefur Pétur hag af því að starfsemin sé aðskilin.
Guðmundur Örn Jónsson hjá FME skrifaði einnig greinina Aðskilnaður viðskiptabanka frá annarri fjármálastarfsemi (http://www.fme.is/media/utgefid-efni/Fjarmal-2-19.juni.pdf) í sumar. Hann bendir á að í nútíma hagkerfi á sérhæfingu og viðskiptum séu greiðslur ekki í formi vöruskipta heldur peninga og því séu vissir hlutar fjármálakerfisins lífsnauðsynlegir fyrir nútíma hagkerfi. Hann klikkir út með því að segja að "bönkum þannig reynst örðugt að færa rök fyrir yfirlýsingum sínum um að aðskilnaðurinn leiði til minni tekjumöguleika og minnkandi samkeppnishæfni." FME ætti að vera hlutlaus stofnun en ekki er óeðlilegt að hún aðhyllist aðskilnaði þar sem að auðveldara er að halda viðunandi regluverki með aðskilnaði í rekstri banka.
Ég er augljóslega sammála rökum ofangreindra einstaklinga.
Þessar greinar voru líklegast viðbrögð við skýrslu unna af Arion banka skömmu áður þar sem spurt er hvort að breyting sé til batnaðar (http://www.arionbanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=26119). Það ætti ekki að koma á óvart að niðurstaða þeirrar skýrslu er að svarið sé nei. Hún er að mörgu leyti ágætlega unnin en margar ályktanir eru dregnar sem eru í besta falli langsóttar. Tímaritið Vísbending benti á þá allra ótrúlegustu og geri ég það líka.
"Eins og áður hefur komið fram hafa umtalsverðar breytingar átt sér stað síðustu misseri í fjármögnun banka en aðskilnaður leiðir til enn frekari breytinga í þeim efnum. Í kjölfar aðskilnaðar byggist fjármögnun viðskiptabanka í enn meiri mæli á innlánum. Af þeim sökum verður geta þeirra til að taka lán, önnur en þau sem byggjast á veðsetningu eigna, lítil. Notkun eignavarinna skulda viðskiptabanka eykst því auk þess sem dregur úr getu þeirra til að gefa út skuldir sem teljast til almennra krafna.
Þetta kann að hafa nokkrar afleiðingar. Ef viðskiptabanki fer í þrot er minna en áður af almennum kröfum til að mæta tapi auk þess sem veðsetning eigna er almennt meiri. Afleiðingin er sú að minni líkur eru á því að nægar eignir séu til að mæta öllum forgangskröfum. Þar með er ólíklegra að hægt sé að færa innstæður yfir í nýtt félag ásamt eignum í þeim tilgangi að tryggja óhindraða greiðslumiðlun. Að þessu leyti gæti aðskilnaður leitt til þess að dýrara yrði að glíma við þrot banka."
Með öðrum orðum, ef viðskiptabanki, sem er ekki líka fjárfestingarbanki, fer í þrot þá er erfiðra að láta kröfuhafa taka skellinn. Þetta er rétt. Ýmsar spurningar vakna þó við þetta. Biðja kröfuhafar ekki einfaldlega um hærra vaxtastig þegar verið er að lána til íslenskra banka með þetta sjónarmið? Auk þess þættu erlendir kröfuhafar, sem þurfa að taka á sig meira tap þegar að innstæður eru fluttar yfir í nýtt félag (lesist banka), þetta vera áhugaverð rök sem vert væri að grandskoða.
Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hefur blásið til fundar um þetta málefni. Nánari upplýsingar koma fram á vefsíðu félagsins, www.fvh.is.
MWM
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.