Gjaldeyrishöft og vandræði í Evrulandi
2.7.2012 | 16:47
Í svari Steingríms J. Sigfússonar í dag við fyrirspurn Illuga Gunnarssonar um undirbúning stjórnvalda vegna mögulegrar útgöngu Grikklands úr evrusamstarfinu segir hann að kreppan gæti haft neikvæð áhrif á innlendan hagvöxt og frestað eitthvað afnámi gjaldeyrishafta.
Nú er það svo að gengi gjaldmiðla endurspegla efnahagslega stöðu ríkja viðkomandi myntar og skiptir þar hagvöxtur, vaxtastig og verðbólga miklu máli. Þó svo að kreppa í Evrópu hefði neikvæð áhrif á innlendan hagvöxt þá hlýtur hlutfallsleg staða Íslands að verða sterkari við það að hún veikist hjá öðrum þjóðum.
Því er erfið staða helstu viðskiptalanda Íslands slæm tíðindi og áhyggjuefni í sjálfu sér en myndar þó hugsanlega tækifæri til að afnema höftin. Nú er atvinnuleysi að hjaðna og Gylfi Zoega hefur lýst því yfir að kreppunni á Íslandi sé lokið. Samkvæmt nýlegu riti AGS er íslenska krónan í dag vanmetin um 5-20%. Það vanmat myndi minnka ef Evrulönd kæmust yfir núverandi erfiðleika og auka óvissu við afnám gjaldeyrishafta ef hagvöxtur í Evrópu og BNA tæki kipp upp á við.
Því spyr ég; ef ekki er hægt að afnema höft þegar að efnahagsástand Íslands er betra en hjá helstu viðskiptalöndum okkar, er fræðilegur möguleiki á slíku þegar að þeir hlutfallslegu yfirburðir hafa hjaðnað á nýjan leik?
MWM
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.