Íslensk skuldabréf - langtímasjónarmið

Miklar sveiflur urðu á gengi íslenskra skuldabréfa í síðustu viku. Helsta ástæða þess var sú sýn að erlendir fjárfestar í "gíslingu" með fé sitt á Íslandi mættu ekki eiga áfram þau skuldabréf sem mest viðskipti eru með og því væri tímabundin söluþrýstingur í farvatninu. Einhver lýsti þessu sem "slátrun" á skuldabréfamarkaði. Nú þegar að lækkunin er að mestu gengin til baka kallast þetta leiðrétting (Már Guðmundsson tók þannig til orða), eitthvað sem ég hef aldrei skilið; kom í millitíðinni í ljós einhver skekkja í útreikningum á markaðsvirði skuldabréfa?

Það sem skiptir þó öllu máli er að skuldabréf eru enn verðlögð á þeim kjörum að þau eru góður kostur (hér skauta ég framhjá því að íslensk ríkistryggð skuldabréf eru ekki nauðsynlega án skuldaraáhættu, en í skugga gjaldeyrishafta má segja að þau séu sá kostur sem komist næst því). Vöxtur vergrar landsframleiðslu jókst aðeins um tæp 2% á síðasta ári og ekki virðist breyting til batnaðar vera í farvatninu. Í ljósi þess sterka sambands sem ríkir á milli þjóðarframleiðslu og ávöxtunarkröfu sem hægt er að gera til ríkispappíra (og reyndar hlutabréfa líka) var hækkun ávöxtunarkröfunnar byggð á skammtímasjónarmiðum.

Til samanburðar má benda á að bandarísk verðtryggð skuldabréf tryggð af ríkinu (þau eru til) bera nú enga raunávöxtun á meðan að á Íslandi bera svipuð bréf í kringum 2,5% raunávöxtun.

Skuldabréf eru langtímafjárfesting og því þarf að líta fyrst og fremst til langtímasjónarmiða þegar verið er að fjárfesta í slíkum pappírum.

Því skiptir það litlu máli til lengri tíma hvort að einhverjum fjárfestum sé bannað eða ekki að eiga í íslenskum ríkispappírum. Sé erlendum kröfuhöfum bannað að eiga í þeim þá aukast líkur á því að gjaldeyrishöftum sé aflétt og litið sé á nýjan leik á fjárfestingakosti með langtímasjónarmið að leiðarljósi. Íslensk skuldabréf eru enn með það háa ávöxtunarkröfu að ekki er ástæða til þess að selja þau á þessum kjörum.

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband