Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Í vöruhúsi menningarlegra leikmynda

Eitt af einkennum útrásar íslensku bankanna árin 2002-2008 var hin mikla þjóðernislega umræða sem átti sér stað. Eins og flestir muna varið var að líkja íslenskum bankamönnum og viðskiptamönnum við víkinga fyrri tíma. Í umhverfi þar sem áhersla er lögð á sérstöðu þjóðarinnar getur sögulegur samanburður við aðra virst vera fráleitur og þannig auðveldað að litið sé fram hjá aðvörunarmerkjum sem annars ættu að vera augljós.

 

 

Ákveðin þversögn felst í því að á sama tíma og íslenskt bankakerfi fylgdi því sem var að gerast á alþjóðlegum mörkuðum var fjármálaumhverfið á Íslandi í auknum mæli túlkað sem hluti af þjóðareinkennum Íslendinga. Hagrænar breytur eru því samhliða hluti af hnattrænu og staðbundnu umhverfi jafnframt því sem þær eru tengdar samfélagslegum hugmyndum um þjóðerni og samkennd.

 

Þessi áhersla á íslenskt þjóðerni kemur skýrt fram  í bæklingi sem Landsbankinn sendi landsmönnum á hápunkti útrásarinnar svokölluðu þar sem yfirskriftin var: Við þekkjum okkar fólk. Ekkert var fjallað um bankastarfsemi í bæklingnum. Þess í stað var fjallað um heillandi sérkenni Íslendinga sem gerði ‘okkur’ að einstakri þjóð. Í almennri umræðu var oftar en ekki vísað í einkenni þess hversu miklir víkingar Íslendingar væru, sem er afar fjarri raunveruleikanum því þjóðin var fram að aldamótunum 1900 nær öll starfandi við landbúnað og hafði gert slíkt um aldaraðir.

 

Íslenskt bankakerfi var búið að vera með svipuðum hætti nánast frá upphafi þess, sem rekja má aftur til sjöunda áratugar nítjándu aldar þegar að sparisjóðir komu til sögunnar og síðan nokkrum árum síðar þegar að Ísland fékk fjárforræði og stofnun Landsbanka Íslands. Hugsanleg undantekning var árin 1904 til 1930 en á heildina litið var íslenskt bankakerfi afar staðbundið og miðaði að því að þjónusta ákveðnum stéttum eða byggðarlögum. Kjör voru að mestu leyti niðurnegld af stjórnmálamönnum og skipti þjónusta almennt mestu máli.

 

Á sama tíma og íslenskt bankakerfi umturnaðist upp úr 1995 og varð alþjóðlegra mátti sjá sterka áherslu á sérkenni íslensku þjóðarinnar, sem hafði ekki verið megin áherslu atriði áður, og samhliða reynt að minnka áherslu á staðbundið samhengi þeirra út frá starfstéttum eða byggðarlögum. Bankar voru túlkaðir með afar þjóðernislegum hætti, þrátt fyrir að vera mikilvægur hluti í þátttöku Íslendinga í hnattvæddum ferlum.

 

Þessi breyting kom fram með ýmsum hætti. Sparisjóðir hættu að nota staðbundin nöfn sín að mestu leyti og urðu þekktir undir skammstöfunum. Dæmi um slíkt er Sparisjóður Hafnarfjarðar, sem varð að SPH og varð svo loks að Byr sparisjóði (litlausara nafn er ekki hægt að hugsa sér).. Á sama tíma var verið að fjalla um landnámsarfleið Íslendinga í ræðum og riti. Var engu líkara en að tímavél væri til staðar sem flytti land og þjóð margar aldir aftur í tímann hvað varðaði einkenni okkar. Gekk sú umræða svo langt að halda hefði mátt að stríð væri í gangi. Var til að mynda fyrirsögn í leiðara Markaðarins árið 2006 eftirfarandi: Danir eru í árásarham og engra varna að vænta þar í landi: Verðum að verjast lyginni sjálf. Við Íslendingar áttum með öðrum orðum sem ein (víkinga)þjóð að hópast saman til varnar.  

 

Með þessu var heil þjóð virkjuð í útrás íslensku bankanna. Það er kaldhæðnislegt að hagsmunir þjóðarinnar og bankanna, sem höfðu haldist mikið í hendur í áratugi, var líklegast minnst þessi ár þegar að bankarnir lögðu hvað mesta áherslu á að velgegni þeirra og þjóðarinnar væri sameiginleg (tapið var að hluta til þó sameiginlegt).

 

Ofangreint er hluti af umfjöllun í grein okkar Kristínar Loftsdóttur sem nýlega birtist í Skírni, tímarit hins íslenska bókmenntafélags (vorhefti 2014 númer 188), sem nefnist Bankar í ljóma þjóðernishyggju: Efnahagshrunið, hnattvæðing og menning. Fjallað var um þessa grein í þættinum Víðsjá í vikunni þar sem viðtal var tekið við okkur. Hægt er að hlusta á það á þessari slóð: http://www.ruv.is/menning/i-voruhusi-menningarlegra-leikmynda

MWM



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband