Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2016

The Big Short - sannar sögur

Sönn íslensk saga

Einu sinni var íslenskur bankamaður sem hóf störf í banka í byrjun október 2007. Hann hefði starfað þar í 2-3 daga þegar hann var beðinn um að kanna hversu vitræn kaup væru í bandarískum banka. Íslenski bankinn hafði á þeim tímapunkti þegar keypt bréf í bankanum fyrir um það bil 300 milljónir íslenskra króna og stóð til að kaupa auk þess fyrir 700 milljón krónur í viðbót, eða fyrir samtals 1 milljarð króna.

Lítil rannsóknarvinna hafði átt sér stað vegna þessara kaupa önnur en að markaðsvirði bankans var lágt borið saman við innra virði eigin fjár hans (svokallað V/I hlutfall eða á ensku Price/Book ratio). Auk þess hafði ákveðið fjárfestingarfyrirtæki verið að spá í að kaupa hlut í bankanum en hafði af einhverjum ástæðum hætt við kaupin.

Þetta var banki sem sérhæfði sig í fasteignalánum, staðsettur í miðju Flórída fylki. Nokkrum starfsmönnum fannst að frekari rannsókn ætti að eiga sér stað varðandi bankann áður en ráðist yrði í frekari kaup (þ.e. 700 milljón krónur í viðbót). Þeir höfðu einnig áhyggjur af því að fréttir um aukin vanskil fólks af húsnæðislánum í Bandaríkjunum gætu haft neikvæðari áhrif á rekstur bankans en almennt var gert ráð fyrir.

Íslenski bankamaðurinn fór að lesa sér til um stöðu húsnæðismála í Bandaríkjunum og þurfti ekki mikla rannsóknarvinnu til að sjá að sá markaðurinn stæði á miklum brauðfótum. Húsnæðisverð hafði hækkað gífurlega, meira en góðu hófi gegndi, sérstaklega í ljósi þess að engin kreppa hafði ríkt á þeim markaði árum saman. Nokkrar vefsíður sjálfstæðra greinenda bentu á að vanskil væru að aukast hratt og til að bæta gráu ofan á svart þá bentu sumir þeirra á að margt væri athugavert við lánveitingar til fólks; margir voru að fá húsnæðislán að því marki að vonlaust væri til lengdar að fólkið gæti staðið í skilum.

Það vildi þannig til að íslenski bankamaðurinn þekkti konu vel sem átti heima sunnarlega í næsta fylki við Flórída. Hún tjáði honum að það væru „til sölu“ skilti út um allt í kringum hana og að þeim hefði fjölgað gífurlega síðustu mánuði. Annað símtal við verðbréfamiðlara sem átti heima í Florída jók áhyggjur íslenska bankamannsins. Verðbréfamiðlarinn sagði að fasteignir sem fyrr á árinu hefði verið veðsettar á $600.000 hefði verið nýlega seldar á uppboði á $300.000. Íslenski bankamaðurinn sá að mikið fasteignahrun væri í aðsigi; stormur væri á leiðinni en fólk sæi hann ekki ennþá. Hann hafði jafnframt áhyggjur af því að svipuð staða væri að myndast á Íslandi.

Bankamaðurinn kallaði um það bil tveimur vikum síðar bankastjóra og yfirmann fjárstýringar bankans á sinn fund. Hann sagðist hafa rannsakað stöðuna og taldi það jafnvel ekki óhugsanlegt að þessi banki í Flórída yrði orðinn gjaldþrota eftir 12 mánuði. Þetta orðaði hann varfærnislega því á þeim tímapunkti gat slík yfirlýsing haft afar neikvæð áhrif á stöðu hans innan bankans. Þegar að hann hélt áfram að koma fram með rök um slíkar áhyggjur stóð bankastjórinn á fætur og sagði eitthvað á þá leið að hann sæi alveg að búið væri að rannsaka málið og því mætti hætta við kaupin og jafnvel selja þau bréf sem þá þegar hefðu verið keypt. Að því búnu gekk hann í burtu.

Þessi ákvörðun reyndist farsæl. Bréfin sem búið var að kaupa voru seld með um það bil 100 milljón króna tapi. Ári síðar voru þau orðin verðlaus og kröfuhafar bankans áttu því aðgang að 900 milljón krónum meira en ella.

The Big Short

Ofangreind saga rifjaðist upp þegar ég sá myndina The Big Short sem var frumsýnd hérlendis um daginn á sérstakri forsýningu VÍB. Sagan er byggð á samnefndri bók Michael Lewis sem er að mínu mati meðal bestu bóka sem skrifaðar hafa verið um fjármál. Myndin fjallar um nokkra einstaklinga sem áttuðu sig á því að húsnæðisbóla væri að eiga sér stað í Bandaríkjunum. Þeir tóku því stórar stöður á móti verðbréfum tengdum afurðum tengdum húsnæðislánum (skortstöður eða á ensku short selling). Ólíkt íslenska bankamanninum þá þurftu þeir að sæta gagnrýni hjá flestum samstarfsfélögum sínum og var jafnvel hlegið að fávisku þeirra. Reyndi svo mikið á þá að margir þeirra uppskáru litla gleði, jafnvel biturleika, eftir að hafa þénað jafn mikið á raun bar vitni á þessum stöðutökum.

Myndin fylgir bók Lewis í flestum atriðum vel eftir. Ég minnist þess ekki að neinu hafi verið bætt við til að gera söguna áhugaverðari, enda ekki þörf á því. Helsta breytingin er að Lewis fjallar meira um eina sögu í einu á meðan að myndin fylgir tímaröð eftir til að halda flæðinu fyrir áhorfendur. Það er áhugavert hversu þekktir leikarar leika í þessari mynd, sem fær örugglega takmarkaða aðsókn, auk þess tel ég að Christian Bale ætti að fá Óskarsverðlaun fyrir sinn leik.

Ég mæli hiklaust með þessari mynd.

MWM

ps. Ég hef heyrt því hvíslað að næsta húsnæðisbóla sem springur verði í Noregi.


Erlendar íslenskar fjárfestingar

Hlutabréfavísitölur hafa fallið töluvert mikið á alþjóðlegum mörkuðum síðustu vikur. Íslenska hlutabréfavísitalan hefur í takti við erlendar vísitölur lækkað 7-8% fyrstu daga ársins.

Íslensk hlutabréf

Þó svo að íslenska hlutabréfavísitalan hafi lækkað talsvert minna en lækkun flestra erlendra hlutabréfavísitalna, þá er ekki þar með sagt að hún sé lítil. Hríðfallandi olíuverð hefur haft afar neikvæð áhrif á framtíðarrekstur margra orkufyrirtækja. Hlutabréf olíufyrirtækja hafa lækkað mikið í virði, en þau mynda til að mynda 12% af bresku FTSE 100 hlutabréfavísitölunni. Tvö fyrirtæki á Íslandi hafa aftur á móti töluverðan hag af lækkandi olíuverði, Icelandair og Eimskip. Samtala markaðsvirðis þessara tveggja félaga er rúmlega 20% af samtölu skráðra hlutabréfa í Kauphöllinni. Engu að síður hefur markaðsvirði beggja félaga fallið tæplega 10% síðustu tvær vikur.

Áhyggjur af alþjóðlegum samdrætti skýra þessa lækkun að einhverju leyti. Verði samdrátturinn í líkingu við það sem gerðist árin 2008-2010 þá er innstæða fyrir jafnvel enn frekari lækkun. Hugsanlegt er að koma ferðamanna til Ísland dragist mikið saman sem hefði afar neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Rétt er að hafa í huga að hlutabréfavísitölur hafa sögulega séð verið besti fyrirboðinn um efnahagsspár. Verði alþjóðlegur samdráttur aftur á móti ekki af þeirra stærðargráður að hann hafi neikvæð áhrif á rekstur Icelandair og Eimskips þá lækkar kostnaður beggja fyrirtækja og hagnaður þeirra eykst (samkeppni kemur þó í veg fyrir að slík hagnaðaraukning verði til lengri tíma til staðar).

Erlendar íslenskar fjárfestingar

Gjaldeyrishöft tóku gildi á sama tíma og gengi hlutabréfa tók að lækka verulega árið 2008. Þau féllu enn meira í upphafi árs 2009. Síðan þá hafa hlutabréfavísitölur um allan heim hækkað mikið. Bandaríska Dow Jones hlutabréfavísitalan hefur til dæmis tvöfaldast í virði og sú breska í kringum 50% frá lægsta punkti árið 2009, jafnvel eftir undanfarnar lækkanir á gengi hlutabréfa.

Segja má að höftin hafi stutt við uppbyggingu íslensks verðbréfamarkaðar, meira en nokkur maður þorði að vona í kjölfar hrunsins, en fórnarkostnaðurinn var að ákjósanleg kauptækifæri á erlendum mörkuðum fóru forgörðum. Nú, þegar að gjaldeyrishöftin eru hugsanlega að nálgast endastöð, opnast á ný möguleikar til að fjárfesta á erlendum mörkuðum og dreifa þannig áhættu fyrir íslenska fjárfesta. Það eru því ekki nauðsynlega slæmar fréttir að erlend hlutabréf séu að lækka í virði. Ef til vill eru einfaldlega álitleg kauptækifæri að myndast á erlendum mörkuðum loksins þegar að Íslendingar geta á ný fjárfest utan landsteinanna.

MWM


Kína og hlutabréf - mýtur um hrun

Hlutabréf í Kína eru aftur í sviðsljósinu þessa dagana eftir töluvert mikið fall hlutabréfavísitölunnar þar í upphafi árs. Aðrir hlutabréfamarkaðir féllu einnig í virði.

Ýmsar skýringar hafa komið fram varðandi þetta verðfall hlutabréfa en að mínu mati eru engar nýjar fréttir að koma fram. Gengi hlutabréfa í Kína er á svipuðum slóðum og það var í haust og einnig fyrir ári síðan. Frá ársbyrjun 2014 hækkaði gengi kínverskra hlutabréfa mikið en féll svo aftur um haustið. Eftir það mikla fall hækkaði gengi kínversku hlutabréfavísitölunnar á nýjan leik aðeins til að falla aftur á svipaðar slóðir. Lítið er vitað hversu mikinn þátt kínversk stjórnvöld hafa á gengi hlutabréfa en ekki er útilokað að þau geri slíkt með einhverjum hætti, eins og stjórnvöld margra annarra ríkja gera með beinum eða óbeinum hætti.

Fjallað hefur verið um að hægja sé á vexti kínverska hagkerfisins. Aftur, það eru ekki nýjar fréttir. Líkum hefur verið leitt að því í töluverðan tíma auk þess sem bent hefur verið á ýmis bólueinkenni innan hagkerfisins í mörg ár. Hinn mikli vöxtur kínverska hagkerfisins hefur verið byggður upp með svipuðum hætti og Sovétríkin gerðu á tíma Stalíns (já, það var mikill hagvöxtur þar í nokkra áratugi). Fólk hefur verið flutt úr sveitum í borgir þar sem að verksmiðjur hafa verið reistar til að framleiða ódýran varning til sölu um allan heim. Hagvexti byggðum á slíkum forsendum lýkur á einhverjum tímapunkti, það er einungis spurning um hvenær.

Einnig hefur verið bent á að fjárfestar séu órólegir vegna lækkandi olíuverðs. Má ætla af þeim skrifum að olíuverð endurspegli hagvöxt og gengi hlutabréfa að einhverju leyti. Verð á fati af olíu fór niður í $10 árið 1999 á sama tíma og hlutabréfamarkaðir voru á blússandi siglingu. Síðan hækkaði verðið á olíu jafnt og þétt næstu árin fram að árinu 2008. Á sama tíma lækkaði gengi hlutabréfa frá árinu 2000-2003 og tók þá að hækka á nýjan leik. Engin fylgni var á milli olíuverðs og gengi hlutabréfa á tímabilinu. Olíuverð náði hæstu hæðum sumarið 2008 og kostaði fatið þá $145. Olíuverð hækkaði mikið fyrstu mánuði þess árs og lækkaði gengi hlutabréfa á sama tíma. Aftur, engin fylgni var sjáanleg á milli þessara tveggja þátta. Nú er sagt að gengi hlutabréfa sé að lækka að því olíuverð sé lágt!

Einföld skýring er sú að gengi hlutabréfa fyrirtækja í olíugeiranum lækkar þegar að olíuverð fellur. Að sama skapi hafa neytendur meiri peninga á milli handanna í aðra neyslu og sást það til dæmis á íslenska hlutabréfamarkaðinum í gær (fimmtudag) þegar að hlutabréf Haga hf. hækkuðu í verði á meðan að íslenska hlutabréfavísitalan lækkaði tæplega 2%.

Reyndar væri það ágætt fyrir íslenska fjárfesta ef erlend verðbréf falla í verði næstu mánuði og jafnvel ár. Nú þegar að gjaldeyrishöftum verður aflétt er vel hugsanlegt að flestir góðir fjárfestingarkostir á erlendum mörkuðum verði ekki lengur til staðar, enda hefur gengi hlutabréfa hækkað mikið síðustu ár og hefur bandaríska Dow Jones hlutabréfavísitalan tvöfaldast síðustu 7 ár (jafngildir um það bil 10% árlegri jafnri ávöxtun). Lækki erlend verðbréf í virði gæti það einfaldlega skapað kauptækifæri fyrir Íslendinga á erlendri grundu.

Ég var í viðtali á RÚV í gær (fimmtudag) vegna þessa máls, hægt er að hlusta á viðtalið með því að ýta á „spila“ hnappinn á miðri mynd af mér sem kemur fram hérna - http://ruv.is/frett/ofmaelt-ad-tala-um-hrun

MWM

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband