Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Sparsamir Belgar

Almennt gengur fjármálafræði út frá forsendum um að flestir einstaklingar hegði sér með svipuðum hætti. Slíkt háttalag er oftast talið vera nálægt því að vera bundið almennri skynsemi. Eitt af því sem ég hef verið að rannsaka er fjármálahegðun fólks. Slíkar rannsóknir eru ekki takmarkaðar við atferli fólks, til dæmis hvernig fólk hegðar sér stundum óskynsamlega í fjármálum (til dæmis nokkur ár fram að hruni þegar að kolamolar virtust geta breyst í gull) heldur einnig hvernig fólk hegðar sér mismunandi á milli landa.

Íslendingar eru lítt gefnir fyrir að spara þrátt fyrir almenna umræðu um mikinn sparnað hérlendis. Á árunum 1997 til 2005 var neysla almennings í kringum 5-10% hærri en ráðstöfunartekjur samkvæmt gögnum frá Hagstofunni. Sparnaðarhlutfall Íslendinga er meðal hið lægsta í heiminum þrátt fyrir alla þá áherslu sem lögð er á reglubundin sparnað (hugsanlega er það einmitt vegna þess en það er efni í annan pistil). Sparnaðargleði Norðurlandabúa er til dæmis miklu meiri en við erum í svipuðum flokki og Grikkland og Portúgal þegar kemur að sparnað.

Þetta gefur vísbendingu um að hér sé "þetta reddast" hugmyndin enn í fullu fjöri þegar kemur að fjármálum. Eins og ég hef oft bent á er til að mynda miðað við 3,5% raunávöxtun í útreikningum á lífeyri, sem er gjörsamlega fráleitt viðmið (FME var um daginn annað árið í röð að benda á að gatið hjá lífeyrissjóðum er stöðugt að stækka því að skuldbindingar eru miðaðar við ávöxtun sem lífeyrissjóðakerfi getur aldrei uppfyllt, jafnvel með óvarkári fjárfestingastefnu). 

Ein þjóð sem sparar mikið er Belgía. "Þetta reddast" hugsunin á þar lítt upp á pallborðið. Sparnaðarhlutfall Belga töluvert hærra en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Einnig fjárfesta Belgar almennt meira í traustum fjárfestingum en aðrar þjóðir og eru jafnvel tilbúnir til að fá neikvæða ávöxtun þegar að öryggið er meira og aðgengi að fjárfestingum er auðveldara (til dæmis sparnaðarreikningar). Mælingar á Íslandi gefa til kynna að áhættugleðin eftir hrun hafi kolfallið og því sé fólk enn tilbúið til að sætta sig við neikvæða raunávöxtun (verðbólga síðustu 12 mánuði hefur reyndar verið það lág að flestir innlánsreikningar bundnir í þrjá mánuði eða lengur hafa veitt ágætis raunávöxtun). Langtímafjárfestingar fela almennt í sér meiri áhættu en sparnaðarreikningar en veita þó oftast slakari ávöxtun en langtímafjárfestingar.

Fyrrverandi nemandi minn í atferlisfjármálum, Nicolas Lenaerts, skrifaði áhugaverða ritgerð um þetta efni. Hann ber saman sparnaðarvitund Belga við aðrar nærliggjandi þjóðir og einnig áhættufælni þeirra. Hann telur sjálfur að hluti af skýringunni sé að Belgar hafi oft verið á milli steins og sleggju þegar stríð hefur geisað í Evrópu og séu því minna áhættusæknir þegar kemur að fjárfestingum. Lenaerts færir jafnvel góð rök fyrir því að Belgar mættu vera meira áhættusæknir þegar kemur að fjárfestingum og ættu að dreifa betur fjárfestingum sínum í verðbréf sem hugsuð séu sem langtímafjárfestingar.

Lenaerts hefur góðfúslega veitt mér leyfi til að birta ritgerð hans og er hægt að nálgast hana á þessari slóð:  

https://www.dropbox.com/s/davw96oa0njutiy/The%20impact%20of%20the%20financial%20crisis%20on%20the%20Belgian%20saving%20behaviour%20Nicolas%20Lenaerts.pdf

MWM 

 

 


Afnám verðtryggðra neysluvísitölulána

Mikið hefur verið fjallað um nauðsyn þess að afnema verðtryggingu á lánum hérlendis. Ýmis rök, flest góð, hafa verið nefnd í því sambandi. Meðal þeirra er að verðtryggð lán séu að mestu leyti ónæm fyrir stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Slíkt gerir það að verkum að þau virka illa við að slá á þenslu þegar vextir hækka og hafa takmörkuð áhrif við að auka hagvöxt þegar að stýrivextir eru lækkaðir. Einnig þróast verðtryggð lán ekki nauðsynlega með þeim hætti að þau hækki í takti við virði húsnæðis. Þetta á sérstaklega við um Ísland með fljótandi gjaldmiðil. Árin 2001-2007 styrktist íslenska krónan jafnt og þétt sem hélt aftur af undirliggjandi verðbólgu. Árið 2008 snérist sú þróun í öndverðu sína þegar að bandarískur dollar sem kostaði 60 íslenskar krónur í árslok 2007 kostaði í október orðið 150 krónur á einum tímapunkti, með tilheyrandi verðbólgu sem féll á verðtryggð lán af miklum þunga. Eignarhlutur margra í húsnæði sínu þurrkaðist út og gott betur.

Afleit rök þess að afnema eigi verðtryggð lán er að fólk eignist aldrei neitt í húsnæði sínu þrátt fyrir að það borgi stöðugt af lánum sínum. Ég þekki dæmi um einstakling sem kvartaði sáran yfir því að hann hefði borgað stöðugt vexti og afborganir af 12 milljóna króna láni sem tekið var árið 1994. Rúmlega 10 árum síðar stóð það lán enn í 12 milljónum króna; það stóð með öðrum orðum í stað. Þegar ég spurði hann hvert kaupvirðið hafi verið kom í ljós að það hefði verið tæplega 20 milljón krónur. Lánshlutfallið var því um það bil 60%. Virði húsnæðisins var hins vegar á þeim tímapunkti um það bil 60 milljón krónur. Eftirstöðvar lánsins voru því einungis um 20% af virði húsnæðisins.*

Óverðtryggð lán eini kosturinn? 

Þrátt fyrir að mörg góð rök séu til staðar um að afnema eigi verðtryggingu varðandi lánveitingar þá virðist sú skoðun vera ríkjandi að óverðtryggð lán vera eini valkosturinn í stöðunni. Óverðtryggð lán bera aftur á móti (almennt) afar háa greiðslubyrði í upphafi lántímabils. Hægt er að gera slík lán að jafngreiðslulánum en þá er munurinn á þeim og verðtryggðum lánum orðinn hart nær enginn. Verði óverðtryggð lán einungis í boði þá er viðbúið að fólk ráði ekki við greiðslubyrðina sem fylgir þeim fyrstu árin. Lántaka myndi dragast saman með tilheyrandi lækkunum í fasteignaverði, hugsanlega á versta tíma fyrir íslenskt atvinnulíf. Óverðtryggð lán eru auk þess langt frá því að vera ónæm fyrir sveiflum íslensku krónunnar. Veikist krónan hækkar verðbólga og vaxtastig fylgir almennt verðbólgu. Vaxtakostnaður heimila hækkar á versta tíma fyrir íslenskt þjóðfélag þegar að íslenska krónan veikist en lækkar þegar að hún styrkjist. Rétt eins og með verðtryggðu lánin þá er það innbyggt í óverðtryggð lán að greiðslubyrði þeirra minnkar og eykst í öfugu hlutfalli við eðlilega peningastjórnun. Raunvextir óverðtryggðra lána ættu auk þess almennt að vera hærri en verðtryggðra lána.

"Verð" verðtryggingar 

Í nýlegum pistli sem Ólafur Þ. Stephensen skrifar í Fréttablaðinu, Er afnám verðtryggingar næst á dagskrá? Órökrétt framhald, skrifar hann "...að verðtryggingin er verðið sem við greiðum fyrir veikan og óstöðugan gjaldmiðil. Án hennar virkar peningakerfið ekki. Við losnum aldrei við verðtrygginguna nema skipta um gjaldmiðil - en ríkisstjórnin vill skella í lás dyrunum að eina möguleika Íslands á nýrri mynt."

Hér er ekki verið að taka afstöðu til upptöku nýs gjaldmiðils (eða beintengingu krónu) en það er kristaltært, eins og ég hef áður bent á, að væru húsnæðisvísitölulán í stað verðtryggðra eða óverðtryggðra lána almennt við lýði á Íslandi þá væri möguleikinn til upptöku annarrar myntar töluvert auðveldari. Þó svo að byggingarvísitala húsnæðis sé næm fyrir gengi íslensku krónunnar þá hefur hún ekki nauðsynlega áhrif til skemmri tíma. Árin 2001-2007 lækkaði byggingarkostnaður stöðugt samhliða styrkingu krónunnar, sem gerði það að verkum að innflutt hráefni vegna byggingaframkvæmda urðu stöðugt ódýrari í krónum talið, en fasteignaverð hækkaði á sama tíma langt umfram verðbólgu. Þegar að íslenska krónan veiktist hækkaði byggingarkostnaður gífurlega á sama tíma og fasteignaverð lækkaði umtalsvert mikið.

Peningakerfið myndi líka virka betur í umhverfi þar sem að húsnæðisvísitala væri við lýði. Í verðtryggðu umhverfi hafa stýrivextir takmörkuð áhrif. Hækkandi stýrivextir árin 2002-2007 í umhverfi fljótandi gjaldmiðils styrktu íslensku krónuna sem dró úr verðbólgu og slógu því lítt á verðbólguna, sem þó var undirliggjandi. Hefðu óverðtryggð lán verið við lýði hefðu stýrivaxtahækkanirnar aukið vaxtabyrði fólks það mikið (hún hefði um það bil tvöfaldast) að margir hefðu vart ráðið við hana þrátt fyrir ábyrga lántöku í upphafi.

Ofþensla í þjóðfélögum birtist oftast í formi hækkandi fasteignaverðs. Ef fasteignir fara að hækka óeðlilega mikið í virði, sérstaklega ef sú hækkun væri langt umfram almennri verðbólgu, þá fer höfuðstóll fólks vegna fasteignalána að hækka tilfinnanlega. Slíkt í sjálfu sér kæmi til með að draga úr ofþenslu en einnig myndu stýrivaxtahækkanir í slíku umhverfi virka betur. Sama á við ef samdráttur á sér stað; fasteignaverð lækkar en á sama tíma lækkar höfuðstóll heimila og greiðslubyrðin minnkar, sem eykur á ný svigrúm heimila til fjárfestinga og neyslu. Samhliða því virkar stýrivaxtastefna Seðlabankans betur því búið er að tengja hana betur við hagvöxt landsins en einnig aftengja að stórum hluta gengisbreytingar samhliða breyttum stýrivöxtum við húsnæðislán heimilanna.

Því er hægt að afnema verðtryggingu íslenskra húsnæðislána. Það þarf ekki að valda stórkostlegum skaða til skemmri tíma varðandi efnahagsvöxt, lækkun á virði fasteigna eða auka greiðslubyrði fólks. Húsnæðisvísitölulán er einföld lausn við þann vanda.

MWM

* Þetta er töluverð einföldun sem ég fjalla um í næsta pistli.

Það var viðtal við mig í síðustu viku í Speglinum á RÚV varðandi húsnæðisvísitöluna. Hægt er að nálgast upptöku af viðtalinu hérna:  http://www.ruv.is/frett/er-husnaedisvisitala-lausnin

  


Upptaka annars gjaldmiðils, afnám gjaldeyrishafta og húsnæðisvísitalan

Eitt af helstu áhyggjuefnum í tengslum við snjóhengjuna svokölluðu, sem heldur íslensku efnahagslífi í gíslingu gjaldeyrishafta, er að með afnámi gjaldeyrishafta kæmi veiking krónunnar (hvort sem hún væri skammvinn eða að einhverju leyti varanleg) til með að auka verðbólgu. Jafnvel þó að tekin væri ákvörðun um að beintengja íslensku krónuna við annan gjaldmiðil, eða taka einfaldlega upp annan gjaldmiðil (eins og til dæmis evruna), þá eru miklar líkur á því að sú tenging yrði á töluvert óhagstæðara gengi fyrir Íslendinga en núverandi skráða gengi gefur vísbendingu um. Það þýðir að innfluttar vörur kæmu til með að hækka í verði og óhjákvæmilegu verðbólguskoti í framhaldinu.

Áhrif af afnámi gjaldeyrishafta á verðtryggð og óverðtryggð lán

Sú þróun aukinnar verðbólgu samhliða afnámi gjaldeyrishafta, sama í hvaða formi það væri, yki á nýjan leik eftirstöðvar lána á verðtryggðum lánum því að aukning verðbólgu bættist við höfuðstól verðtryggðra lána sem greiða þarf vexti af auk afborganna. Ekki er sjálfgefið að fasteignaverð fylgdi slíkri þróun (nýleg reynsla gefur til kynna að öfug þróun ætti sér stað) og því gæti sú eignarmyndun sem fjölskyldur hafa lagt hart að sér að skapa orðið að litlu sem engu við afnám gjaldeyrishafta.

Þar sem að vaxtastig fylgir almennt verðbólgu þá er líklegt að vaxtastig hækkaði við afnám gjaldeyrishafta þannig að fjölskyldur með óverðtryggð lán yrðu einnig fyrir barðinu á afnámi gjaldeyrishafta. Í stað þess að verðbólga bætist við eftirstöðvar slíkra lána þá þyrftu þau heimili að glíma við hærra vaxtaálag sem gæti aukið greiðslubyrðina afar mikið, jafnvel of mikið fyrir mörg þeirra. Sú aukning gæti orðið miklu meiri en hjá þeim sem væru með verðtryggð lán, nema ef þeir lántakendur væru með vaxtaþak á lánum sínum. Vaxtaþök á óverðtryggðum lánum eru þó ekkert annað en önnur útgáfa af verðtryggðum lánum, en í báðum tilfellum er verið að taka lán vegna verðbólgu, eða hærra vaxtastigs í tilfelli óverðtryggðra lána, til að jafna út greiðslubyrði lánanna.

Önnur einfaldari leið - HNV

Það er til einföld leið til að minnka þetta högg sem hlytist af afnámi gjaldeyrishafta. Ef húsnæðislán yrðu tengd húsnæðisvísitölu (HNV) þá yrðu áhrifin af afnámi gjaldeyrishafta töluvert minni; það er jafnvel hugsanlegt að höfuðstóll fasteignalána lækkaði tímabundið í framhaldi af slíkum aðgerðum. Í stað þess að lán sveifluðust í takti við verðbólgu, sem getur sveiflast í öfugu hlutfalli við virði fasteignar, þá fylgja lán tengd HNV einfaldlega mælingu á virði fasteigna samkvæmt Þjóðskrá Íslands (áður Fasteignamati ríkisins). Því er beintenging húsnæðislána við gengi íslensku krónunnar, einn helsti ljóður verðtryggðra lána, afnumin með húsnæðisvísitölulánum.

Reynslan sýnir að fasteignaverð hækkar ekki nægjanlega  þegar að íslenska krónan styrkist óeðlilega mikið (sem hylur undirliggjandi verðbólgu) en lækkar á versta tíma fyrir íslensk heimili samhliða versandi efnahag og þegar að íslenska krónan veikist (sem skapar verðbólguskot). Reynslan árin 2002-2010 sýndi þetta í verki og ekki er ástæða til að halda að sú þróun verði öðruvísi í framtíðinni.

Með afnámi gjaldeyrishafta (gæti verið í formi tengingar við annan gjaldmiðil eða upptöku hans) er viðbúið að skammtímaáhrifin fyrir íslenskt efnahagslíf gætu orðið erfið þó svo að langtímaáhrifin væru jákvæð. Höggið yrði þó óhjákvæmilega þungt fyrir flest heimili sem væru ekki skuldlaus, sama hvort um væri að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán. Væru íslensk heimili í auknum mæli með lán tengd HNV væri slík þróun hins vegar ólíkleg. Ef eitthvað er kæmi höfuðstóll lána jafnvel til með að lækka tímabundið samhliða samdrætti (þegar að íslensk heimili þurfa mest á því að halda) en hækka samhliða auknum langtímahagvexti (þegar að almennt góðæri ríkir hjá íslenskum heimilum).

Byggingarkostnaður og raunvirði íbúðarverðs

Þetta er ekki alveg þó svo einfalt. Með tímabundinni veikingu krónunnar hækkar innflutningsverð byggingarvara sem gerir nýbyggingar dýrari. Byggingarkostnaður myndi óhjákvæmilega hækka og drægi tímabundið úr framkvæmdum. Minni framkvæmdir þýða minna framboð húsnæðis og samkvæmt einföldum fræðum varðandi framboði og eftirspurn leiðir slíkt til hækkandi íbúðaverðs. Áhrifin af því yrðu hins vegar miklu minni auk þess sem að vöntun á fasteignum er aðallega tengd minni eignum, sem hafa hlutfallslega minni áhrif á fasteignaverð. Því má við bæta að nýlega birtist grein í Viðskiptablaðinu, Fasteignaverð rýkur upp eftir Guðna Rúnar Gíslason, sem sýnir að raunvirði íbúðarhúsnæðis er 66,8%-23,3% hærra í dag miðað við árin 2000-2004, ár sem að fáir töldu að fasteignaverð væri sérstaklega lágt.

Sé vilji þjóðarinnar um að beintengja gjaldmiðil okkar við alþjóðlegan gjaldmiðil, í hvaða formi sem er, og afnema samhliða því gjaldeyrishöft, er almenn upptaka HNV vegna fasteignalána stórt skref í þá áttina.

Samantekt um kosti HNV birtist í Fréttablaðinu í dag - sjá hérna

http://www.visir.is/husnaedisvisitala-/article/2014706039919

MWM

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband