Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018

20 stærstu hluthafar – Gegnsæi og traust

Fyrr í vikunni fjallaði ég um neikvæð áhrif þess að Kauphöllin treysti sér ekki til að birta vikulega uppfærðan lista af 20 stærstu hluthöfum skráðra íslenskra félaga sökum nýrra laga varðandi persónuvernd. Síðar sama dag og sá pistill fór í loftið birtist frétt í Fréttablaðinu (sem fyrst upphaflega athygli á þessu máli) um málið. Í viðtali við Pál Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, var hann spurður að því hvort að Kauphöllin gæti ekki nálgast þessar upplýsingar hjá félögunum sjálfum og miðlað þeim áfram? Hann svaraði orðrétt: „Það mætti skoða það nú í kjölfarið að taka upp nýtt verklag. Svo framarlega sem það liggur fyrir óyggjandi samþykki viðkomandi einstaklinga og hlutafélögin geta komið því samþykki á framfæri við Kauphöllina, þá finnst mér alveg koma til greina að skoða það.“ 

Þetta er heldur langsótt. Ef persónuverndarlög koma í veg fyrir að hægt sé að birta eðlilegar upplýsingar fyrir fjárfesta, þá er það hæpið að hægt sé að birta lista reglulega þar sem að sérstakt leyfi þarf fyrir birtingu slíkra upplýsinga. Þetta á sérstaklega við um nýja eigendur í hópi 20 stærstu eigenda skráðra félaga. Ég tók í upphaflegum pistli mínum varðandi þetta mál dæmi um Stím, félag sem stofnað var í þeim tilgangi að kaupa bréf í Íslandsbanka og FL Group. Ólíklegt er að slíkt félag hefði til að mynda veitt samþykki þess fyrir birtingu slíkra upplýsinga og hefði þá vísað í persónuverndarlög. Líkja mætti slíku fyrirkomulagi við ljósvita sem virkaði nánast alltaf, nema þegar að virkilega væri þörf á honum.

Ég ætlaði að fjalla enn ítarlegra um þetta mál en Gísli Halldórsson hjá Íslandssjóðum var skrefinu á undan mér. Hann sendi mér línur í vikunni þar sem að hann fer nánar yfir þetta. Hann hefur veitt mér góðfúslegt leyfi til að bæta þeim línum við í þessum pistli.

Úr lögum um hlutafélög: "Hlutaskrá skal ætíð vera geymd á skrifstofu hlutafélags, og eiga allir hluthafar og stjórnvöld aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar." - Þetta er því ekki meira einkamál en það að hver sem er getur keypt 1 hlut í skráðu félagi og gert tilkall til þess hvenær sem er að sjá lista yfir alla hluthafa og fjölda hluta hvers og eins hluthafa í viðkomandi félagi.

Á hverjum föstudagsmorgni hafa þessir listar verið birtir í áraraðir og það heyrir nánast til undantekningar að ekki eigi sér stað viðskipti í kjölfarið. Stór kaup/sölur stórra fjárfesta, ekki síst lífeyrissjóða eru þá talin mjög jákvæð/neikvæð fyrir framboð/eftirspurn í viðkomandi félagi, eins telst það fréttnæmt þegar erlendir aðilar detta inn á lista, aðilar sem ekki hafa hreyft sig lengi gera það auk þess sem hver og einn getur vissulega líkt og þú bendir á metið hvort óæskilegir aðilar að þeirra mati séu að eignast of stóran hlut í viðkomandi félagi. Hér eru aðeins örfá dæmi, sömuleiðis mætti nefna að þetta gefur vísbendingu um hversu mikil gírun/skortsala er í hverju félagi sem er nú annað sem yfirhöfuð mætti snarbæta.

Tiltrú almennings á innlendan hlutabréfamarkað hefur líklega aldrei verið minni, sem sést best á hér um bil engri þátttöku eða eignarhaldi hans á skráðum bréfum. Þetta er risavaxið vandamál sem er orðið bráðnauðsynlegt að tækla. Þetta skref er skref í átt minni skilvirkni á markaði, minni gegnsæis og minni upplýsingargjafar, skref sem halla svo sannarlega meira á almenning og minni fjárfesta en þá stærri. Það er því mikilvægt að það verði talað gegn þessari breytingu að krafti, við þurfum skref í átt frekari þátttöku almennings en ekki skref í átt að frekar fælingu.

Því má bæta við að bókin The Return of Trust? er væntanleg sem fjallar um uppbyggingu trausts á Íslandi í kjölfar hrunsins. Gísli bendir á að ofan að slakari upplýsingagjöf hallar á almenning hvað gegnsæi varðar. Ég er meðhöfundur tveggja kafla í bókinni auk þess sem ég hef skrifað um málefnið áður með Þresti Olaf Sigurjónssyni og Murray Bryant. Fram kemur að traust almennings til fjármálakerfis Íslands er enn afar ábótavant. Hefði frestur til að skila endanlegum drögum ekki verið útrunninn þá hefði ég bætt þessu dæmi við um neikvæð áhrif í að byggja upp traust. Það er mikilvægt, enda ítreka ég í kennslu við HR að fjármálakerfið byggir fyrst og fremst á trausti.

MWM


Fjárfestavernd fórnuð fyrir persónuvernd

20 stærstu hluthafar

Seint á árinu 2007 hafði ákveðinn einstaklingur samband við mig varðandi eignarhlut ákveðins einkahlutafélags í tveimur skráðum fyrirtækjum. Félagið hét Stím og félögin sem Stím átti skyndilega stóran hlut í voru FL Group og Íslandsbanki. Á þeim tíma var ekki almennt vitað um tilvist Stíms. Þessum félaga mínum þótti það afar undarlegt að óþekkt félag væri skyndilega orðið einn af 20 stærstu hluthöfum í þessum tveimur fyrirtækjum, sem alþekkt var að höfðu mikil tengsl. Grunsemdir vöknuðu hjá okkur um að ekki væri allt með felldu í þessum fjárfestingum, þó ekki væri hægt að útiloka að eðlileg skýring væri til staðar. Þessar grunsemdir jukust í kjölfar frekari rannsókna okkar á félaginu og var það kristaltært í mínum huga að þetta voru ekki félög sem rétt væri að hafa í fjárfestingarsöfnum fjárfesta.

Síðar kom í ljós að þessi kaup voru í besta falli gerð til þess að koma í veg fyrir söluþrýsting á bréfum FL Group og Íslandsbanka. Það að verið var að handstýra genginu með slíkum kaupum gaf til kynna að almenn markaðsöfl réðu ekki ferðinni varðandi markaðsvirði þessara félaga (FL Group var strax á þessum tímapunkti augljóst dæmi um gróflega ofmetið félag og hafði reyndar verið það lengi).

Upplýsingaþjónusta Kauphallarinnar

Kauphöllin hefur til fjölda ára veitt vikulegar upplýsingar um 20 stærstu hlutahafa skráðra íslenskra félaga. Ofangreint dæmi sýnir að slíkar upplýsingar geta reynst vera gulls ígildi þegar kemur að því að veita aðhald í tengslum við eignarhald fyrirtækja. Fjárfestar geta betur fylgst með þróun stærstu hluthafa með aðgengi að slíkum upplýsingum. Séu til dæmis hópar skyldra fjárfesta skyndilega farnir að mynda stóran hluta af eignarhaldi skráðs hlutafélags þá geta fjárfestar betur myndað sér skoðun um það hvort hag þeirra sé betur varið að vera í þeim hópi hluthafa eða ekki.

Segja má að Kauphöllin hafi með þessu sinnt þjónustu sem almennt fellur undir hlutverki kauphalla. Þær stuðla að því að viðskipti með verðbréf séu með þeim hætti að fjárfestar hafi sömu upplýsingar um fyrirtæki hvort sem þeir eru stórir, smáir eða hafi ítök í félögum. Þetta er til dæmis ein ástæða þess að starfsmenn fyrirtækja eru bundnir takmörkunum varðandi fjárfestingar í þeim félögum sem þeir starfa við, þar sem að þeir hafa oft betri upplýsingar um vænta afkomu vinnustaðar síns en utanaðkomandi aðilar.

Slakari fjárfestavernd

Kauphöllin tilkynnti í síðustu viku að vegna nýrra laga um persónuvernd sé ekki lengur hægt að birta þennan lista reglulega. Fari eign fjárhagslegra tengdra aðila yfir eða undir ákveðin mörk þá verði slíkt þó áfram tilkynnt í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. Í tilfelli Stíms hefði hins vegar verið erfiðra að sjá slíka þróun og hefði það ekki komið fram fyrr en töluvert löngu síðar. Nú geta hluthafar Arion banka til dæmis ekki fengið upplýsingar um þróun hluthafa bankans, sem nú þegar er afar óljós, í framhaldi af nýlegu útboði bankans þar sem að 2/3 útboðsins fór til erlendra fjárfesta á hagstæðu gengi.

Þetta skerðir eitt af meginhlutverkum kauphalla sem er að tryggja að stórir jafnt sem smáir fjárfestar hafi sama aðgang að upplýsingum. Samkvæmt tilkynningu Kauphallarinnar má leiða að því líkum að verið sé að fórna fjárfestavernd fyrir persónuvernd, sem ég tel vera langsótt mál. Er vit í því að eign á stórum eignarhlut í skráðu félagi á Íslandi flokkist undir persónuvernd? Hér er eitthvað öfugsnúið í gangi.

Breyta þarf þessum nýlegu lögum um persónuvernd hið fyrsta í þá átt að ekki leiki vafi á að Kauphöllin geti áfram veitt upplýsingar um 20 stærstu hluthafa hverju sinni og að fjárfestar fái á nýjan leik eðlilega upplýsingagjöf.

MWM


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband