Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Made in Organic Iceland

Eitt af því sem flestir sem fara í matvælabúðir í Bandaríkjunum taka fljótt eftir er hversu mikill verðmunur er á matvæli sem eru erfðabreytt með einhverjum hætti og þeirra sem eru það ekki, almennt nefnd lífræn matvæli eða organic á enskri vísu. Mínar óformlegu athuganir benda til þess að matvæli, hvort sem verið er að ræða mjólk, kjöt eða aðrar tegundir þeirra eru um það bil tvöfalt dýrari ef þau eru lífræn.

Það er góð ástæða fyrir þessu. Erfðabreytt matvæli eru í mörgum tilvikum drasl matvæli sem fólk einfaldlega ætti ekki að borða. Þessu hefur verið lýst vel í nokkrum heimildarþáttum- og myndum, til að mynda Food Inc. (sumt í þeirri mynd er hreinlega ekki fyrir viðkvæma - http://www.youtube.com/watch?v=lD-bZkb0Aws) og SuperSize Me (http://www.youtube.com/watch?v=HDqqiWhXAFE&feature=fvwrel). Auk þess eru áhrif slíkra matvæla alls ekki ljós í dag, en ég hef ekki enn séð góð rök fyrir því að erfðabreytt matvæli séu óskaðleg. Segja má að verið sé að framkvæma stærstu rannsókn allra tíma með erfðabreyttum matvælum og eitri tengt iðnaðinum þar sem að stór hluti heimsins er þátttakandi, hvort sem fólki líkar betur eða verr.

Nýlega var birt skýrsla sem valdið hefur fjaðrafoki. Niðurstöður rannsóknarinnar sýnir fram á alvarleg eitrunaráhrif erfðabreytts maíss og illgresiseyðisins, Roundup, sem er seldur í öllum helstu garðyrkjuverslunum á Íslandi. Oddný Anna Björnsdóttir fjallar ítarlega um niðurstöðurnar hérna - http://www.mbl.is/smartland/pistlar/oddnyanna/1258458/.  (Viðbót 25.9 - Ég veit ekki hversu áreiðanleg þessi rannsókn er; hvort sem að niðurstöður halda vatni eða ekki skiptir ekki öllu máli enda er þessi rannsókn ekki meginefni þessarar greinar heldur að vekja athygli á þessu máli því að ég tel að þörf sé á umræðunni - að gera ekkert er ákveðið val)

Ó, fögur er vor fósturjörð

Nú hefur milljónum verið varið í að kynna hreinleika Íslands. Hefur þessi herferð, byggð á traustum grunni, tekist með þeim árangri að hingað flykkjast erlendir ferðamenn. Allir sem hafa farið í Flugleiðavél undanfarin ár sjá að verið er að selja túristum varning sem tengist meira og minna hreinleika náttúruauðlinda landsins. Líklegt er að helstu tækifæri útflutnings næstu ára tengist slíkum hreinleika.

Einhverra hluta vegna virðist þessi umræða ekki ná upp á pallborðið varðandi innlend matvæli. Þetta er ekki alveg rétt, umræðan hefur verið undir yfirborðinu en hefur litlu skilað. Að mínu mati ætti að banna hérlendis erfðabreytingar í matvælum (hvort sem er ræktun, korn eða annarra nota) og styrkja þann grunn búið er að byggja varðandi ímynd Íslands.

Auk þess, ef horft er til lengri tíma, á eftirspurn eftir alvöru matvælum einungis eftir að aukast. Ísland gæti verið í lykilstöðu að vera leiðandi í framleiðslu slíkra gæðamatvæla. Af hverju viljum við framleiða vörur sem kosta $1 þegar að við getum hæglega fengið $2 fyrir þær með því einu að hafa "Made in Iceland" skrifað á þær, sem jafngildir ákveðinn gæðastimpil um hreinleika sem fæli í sér lífræna vöru. Þetta myndi samhliða því styrkja ímynd sjávarafurða landsins.

Þessi umræða takmarkast ekki lengur við vísindatímarit og einhverskonar hippamenningu. Wall Street Journal fjallar um þessa rannsókn en þar kemur fram að þarlend stjórnvöld íhugi að banna innflutning á erfðabreyttum maís ef þessar niðurstöður eru staðfestar - http://www.economywatch.com/in-the-news/french-government-to-review-study-linking-monsanto-corn-and-cancer.21-09.html. Þessi þróun á einungis eftir að aukast sem gerir aðgreiningu enn nauðsynlegri.

Hvað viljum við?

Þetta er ekki einungis spurning um ímynd heldur almenn lífsgæði okkar Íslendinga. Sjálfur reyni ég alltaf að kaupa íslenskar afurðir í stað erlendra þegar kemur að matarinnkaupum. Af hverju kaupa Íslendingar grænmeti frá til dæmis Spáni þar sem að algjör óvissa ríkir um meðhöndlun þess í stað þess að kaupa innlent grænmeti sem við vitum er meðhöndlað í fínum gróðurhúsum rétt utan bæjarmarka höfuðborgarsvæðisins? Á mínu heimili höfum í þessu sambandi ákveðið að styðja íslenskan matvælaiðnað sem tekur ekki þátt í erfðabreyttum efnum og byrjuðum fyrir nokkru síðan að kaupa Bygga (sem okkur er tjáð að innihaldi ekki erfðabreytt efni) í stað Cheerios.

Gömul og lúinn rök eru að áhersla á lífrænan mat séu gamaldags og lúti ekki að framgangi tækninnar. Ég tel að það ætti að snúa þeim rökum við; það er framsækni að aðgreina sig frá öðrum (til dæmis Apple) og einblína á góðar vörur sem veita lífsgæði.

MWM


Séreignarsparnaður til greiðslu húsnæðislána

Guðlaugur Þór Þórðarson kom með afar góða tillögu í greininni Sparnaðarlausn fyrir heimilin sem hann birti á Pressunni í dag - http://www.pressan.is/pressupennar/LesaGudlaug/sparnadarlausn-fyrir-heimilin - þar sem hann leggur til að fólk geti notað séreignarsparnað sinn til greiðslu húsnæðislána. 

Guðlaugur segir:

"Það er rökrétt að leyfa fólki að nýta séreignasparnaðinn til að greiða niður húsnæðisskuldir sínar. Það er ólíklegt að ávöxtun á lífeyrissparnaðinum nái að vera jafn vaxtakostnaði húsnæðislána til lengri tíma. Íslendingar hafa líka lært það að biturri reynslu að sama hvert árferðið er skuldirnar þær fara ekki. Eignir geta bólgnað út eða horfið en skuldirnar eru alltaf til staðar.

Ég legg því til að fólki verði gert heimilt  að nýta séreignasparnaðinn sinn til að lækka húsnæðisskuldir.  Bæði með því að nýta þá inneign sem að það á og einnig með því að greiða inn á höfuðstól lánanna næstu fimm árin í gegnum séreignasparnaðar fyrirkomulagið, þ.e. nýta bæði eigin framlag og framlag launagreiðanda, ásamt skattspörun til þess að lækka höfuðstól lána og þannig vaxtakostnað á komandi árum.

Hverjir eru kostirnir?

1. Þetta léttir líf þeirra fjölskyldna sem að skulda og eiga inneign í séreign eða eru  að borga í séreign.

2. Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna minnkar  þar sem að „eignir“ þeirra eru nýttar til að greiða niður skuldir viðkomandi sjóðfélaga. Fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna er mikið vandamál þegar að þeir geta ekki fjárfest í útlöndum og það býður heim hættunni á eignabólumyndun.

3. Þetta minnkar bankakerfið. Útlánasafnið minnkar sem og eignir þeirra.  Að sama skapi fækkar viðskiptavinum í fjárhagsvanda.

4. Hér er leið ráðdeildar og sparnaðar nýtt til að greiða úr skuldavandanum."

Í framhaldi af fleiri upptalningum segir Guðlaugur: "Ég hef verið þeirrar skoðunar í langan tíma að við eigum að hjálpa fólki til að eignast en ekki hvetja það til að skulda."

Þessu er ég hjartanlega sammála.  Hef ég reyndar verið þessu sammála í nokkur ár og undrast að þetta hafi ekki verið meira í umræðunni.  Í febrúar 2009 ritaði ég grein í Viðskiptablaðinu sem bar heitið Séreignarsparnaður úr fjötrum - http://www.slideshare.net/marmixa/sreignarsparnaur-fjtrum - þar sem þessi sama tillaga var borin fram með álíka rökum.  Þó var sú tillaga mín ekki ný af nálinni, bæði núverandi ríkisstjórn og stjórnarandstaða höfðu viðrað hugmyndina áður.  Rök gegn þessu höfðu komið fram sem voru lítt haldbær.

Nú les alþjóð ef til vill ekki Viðskiptablaðið en hún les Fréttablaðið en þar, nánar tiltekið 22.9.2009, birtist grein mín Séreignarsparnaður - húsnæðislán - http://www.visir.is/sereignarsparnadur---husnaedislan/article/2009627681736 - þar sem ég viðra hugmyndina á nýjan leik. Einhverra hluta vegna virðist enginn þingmaður hafa séð ástæðu til að fylgja þessu eftir, fyrr en nú.

Vonandi nær Guðlaugur Þór betri árangri í þessu máli í þetta sinn.  Flest fólk er að greiða töluvert hærri vexti en séreignarsparnaður getur raunhæft veitt og hefur bilið einungis aukist síðan að greinar mínar birtust.  Því er þessi tillaga orðin löngu tímabær.

MWM


Aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingabanka

Alþingi ályktar að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að skipa nefnd er endurskoði skipan bankastarfsemi í landinu með það að markmiði að lágmarka áhættuna af áföllum í rekstri banka fyrir þjóðarbúið, með aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Nefndin skoði stefnumótun nágrannaríkja í þessu sambandi, ljúki störfum og skili tillögum sínum fyrir 1. október 2012.

Ofangreindur texti er upphaf tillögu til þingsályktunar um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka sem lögð var fram í vor.  Hana er hægt að lesa í heild sinni hér - http://www.althingi.is/altext/140/s/1010.html.  Neðst í skjalinu er fylgiskjal III þar sem að vísað er í grein mína sem birtist í Morgunblaðinu í lok febrúar árið 2009, eða fyrir 3 og hálfu ári síðan, þar sem ég kem með rök fyrir aðskilnaði.  Þau rök eru enn í fullu gildi.

Eftir furðu mikla þögn um þetta brýna málefni létu viðbrögðin ekki á sig standa við þessa tillögu, almennt hjá aðilum sem hafa hagsmuna að gæta.  Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingabanka, skrifaði í grein í lok júní þar sem að hann segir meðal annars: Standi hefðbundnir viðskiptabankar líka í fjárfestingabankastarfsemi þá eru þeir líklegir til að vera með stærri efnahagsreikning og dýrara verður að koma þeim til bjargar og bætir við að vegna þess er betra að hafa fjárfestingabankastarfsemi aðskilda frá almennri innlánastarfsemi með óbeinni ríkisábyrgð. Sem forstjóri fjárfestingabanka hefur Pétur hag af því að starfsemin sé aðskilin.

Guðmundur Örn Jónsson hjá FME skrifaði einnig greinina Aðskilnaður viðskiptabanka frá annarri fjármálastarfsemi (http://www.fme.is/media/utgefid-efni/Fjarmal-2-19.juni.pdf) í sumar.  Hann bendir á að í nútíma hagkerfi á sérhæfingu og viðskiptum séu greiðslur ekki í formi vöruskipta heldur peninga og því séu vissir hlutar fjármálakerfisins lífsnauðsynlegir fyrir nútíma hagkerfi.  Hann klikkir út með því að segja að "bönkum þannig reynst örðugt að færa rök fyrir yfirlýsingum sínum um að aðskilnaðurinn leiði til minni tekjumöguleika og minnkandi samkeppnishæfni."  FME ætti að vera hlutlaus stofnun en ekki er óeðlilegt að hún aðhyllist aðskilnaði þar sem að auðveldara er að halda viðunandi regluverki með aðskilnaði í rekstri banka.

Ég er augljóslega sammála rökum ofangreindra einstaklinga. 

Þessar greinar voru líklegast viðbrögð við skýrslu unna af Arion banka skömmu áður þar sem spurt er hvort að breyting sé til batnaðar (http://www.arionbanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=26119).  Það ætti ekki að koma á óvart að niðurstaða þeirrar skýrslu er að svarið sé nei.  Hún er að mörgu leyti ágætlega unnin en margar ályktanir eru dregnar sem eru í besta falli langsóttar.  Tímaritið Vísbending benti á þá allra ótrúlegustu og geri ég það líka.

"Eins og áður hefur komið fram hafa umtalsverðar breytingar átt sér stað síðustu misseri í fjármögnun banka en aðskilnaður leiðir til enn frekari breytinga í þeim efnum. Í kjölfar aðskilnaðar byggist fjármögnun viðskiptabanka í enn meiri mæli á innlánum. Af þeim sökum verður geta þeirra til að taka lán, önnur en þau sem byggjast á veðsetningu eigna, lítil. Notkun eignavarinna skulda viðskiptabanka eykst því auk þess sem dregur úr getu þeirra til að gefa út skuldir sem teljast til almennra krafna.

Þetta kann að hafa nokkrar afleiðingar. Ef viðskiptabanki fer í þrot er minna en áður af almennum kröfum til að mæta tapi auk þess sem veðsetning eigna er almennt meiri. Afleiðingin er sú að minni líkur eru á því að nægar eignir séu til að mæta öllum forgangskröfum. Þar með er ólíklegra að hægt sé að færa innstæður yfir í nýtt félag ásamt eignum í þeim tilgangi að tryggja óhindraða greiðslumiðlun. Að þessu leyti gæti aðskilnaður leitt til þess að dýrara yrði að glíma við þrot banka."

Með öðrum orðum, ef viðskiptabanki, sem er ekki líka fjárfestingarbanki, fer í þrot þá er erfiðra að láta kröfuhafa taka skellinn.  Þetta er rétt.  Ýmsar spurningar vakna þó við þetta.  Biðja kröfuhafar ekki einfaldlega um hærra vaxtastig þegar verið er að lána til íslenskra banka með þetta sjónarmið?  Auk þess þættu erlendir kröfuhafar, sem þurfa að taka á sig meira tap þegar að innstæður eru fluttar yfir í nýtt félag (lesist banka), þetta vera áhugaverð rök sem vert væri að grandskoða.

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hefur blásið til fundar um þetta málefni.  Nánari upplýsingar koma fram á vefsíðu félagsins, www.fvh.is.

 

MWM

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband