Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2022

Galin hugmynd - álit

Nú er verið að endurvekja galna hugmynd sem lítur á yfirborðinu vel út en er fáránleg, þ.e að aftengja húsnæðisliðinn úr neysluvísitölu sem verðtryggð húsnæðislán eru miðuð við. Hér er mitt álit.
 
Með þessu er verið að veita lán til húsnæðiskaupa með tengingu við neyslu fólks nema því sem tengist húsnæði. Oft hefur verið kvartað undan því að verðtryggð lán væru hálfgerð afleiðulán, en nú er verið að klára dæmið endanlega. Höfuðstóll verðtryggðra lána í kjölfar hrunsins hefði hækkað rúmlega 7% meira (!) en hann gerði hefði þessi boðaða vísitala ráðið ríkjum. Var ástandið ekki nógu alvarlegt? Nær væri að miða við húsnæðisvísitöluna sem gerði það að verkum að höfuðstóll verðtryggða lánsins (til kaupa á húsnæði) myndi einfaldlega sveiflast í takti við húsnæðisverð mínus þeim afborgunum sem ættu sér stað á láninu. Ef kreppa ætti sér stað þá myndi húsnæðisverð nær örugglega lækka en líka höfuðstóll lána og íslenskar fjölskyldur þyrftu síður að selja húsnæði sitt og lenda í fjötrum leigumarkaðarins.
 
MWM

 


Landsbankinn stígur skref í að minnka vaxtamun

Í pistli mínum Tölur varðandi ofurhagnað íslenskra banka, þar sem ég gagnrýndi málflutning um ofurhagnað íslenskra banka, kom í niðurlaginu fram: Nú, þegar að rekstur banka er að verða skilvirkari má þó gera kröfu um að hann lækki niður í 2.0%. Bankarnir geta stigið stórt skref nú þegar í þá áttina með því að hækka breytilega vexti sína minna en sem nemur stýrivaxtahækkunum.

Landsbankinn tilkynnti í morgun uppfærða vaxtaskrá. Breytilegir vextir íbúðalána hækka um 50 punkta og hið sama á við um kjörvexti á óverðtryggðum útlánum. Engar breytingar eru á föstum vöxtum óverðtryggðra íbúðalána. Þá eru engar breytingar á vöxtum á verðtryggðum íbúðalánum, hvorki breytilegum né föstum.

Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 50 punkta. Engar breytingar eru hins vegar á kjörvöxtum á verðtryggðum útlánum. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 50 punkta og yfirdráttarvextir hækka um 75 punkta.

Vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka meira en sem nemur útlánavöxtum, eða allt að 75 punktum, vextir á reikningum með föstum vöxtum hækka um allt að 60 punktum en vextir almennra veltureikninga hækka þó einungis um 10 punkta.

Bankinn er með öðrum orðum í heildina að minnka vaxtamun. Breytilegir útlánavextir utan yfirdráttarlána eru að hækka 50 punkta, sem er 25 punktum minna en nýleg stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Vextir sparireikninga hækka í takti við stýrivextina. Má segja að Landsbankinn sé hér að stíga skref í þá átt að minnka vaxtamun í átt að 2%. Vaxtamunurinn á síðasta ári var 2,3% og þessi aðgerð fer hugsanlega langleiðina með að færa hann niður í það viðmið.

Hér eru tölur dregnar saman varðandi bankanna -

https://www.dropbox.com/s/n4rcs4f09jbklur/islenskir%20bankar%202017%202021.xlsx?dl=0

Hér er einnig góð grein sem Samtök atvinnulífsins skrifuðu fyrir nokkrum árum síðan. Þessi skrif hafa sannarlega staðist tímans tönn - https://cdn.nfp.is/sa/gamaltefni/hvernig-minnkum-vid-vaxtamun-a-islandi.pdf

MWM


Tölur varðandi ofurhagnað íslenskra banka

Mikið hefur verið rætt um stórkostlegan hagnað íslenskra banka undanfarið. Einn ráðherra hefur gengið svo langt að tala um að taka skref í átt að þjóðnýtingu banka með því að leggja til að setja á ný bankaskatt því þeir séu með vaxtaokur. Kannski er rétt að líta á tölurnar.

Arðsemi eigin fjár

Einfalt er að líta á hagnaðartölur og segja að fyrirtæki hljóti að vera að hagnast með óeðlilegum hætti þegar að tölurnar eru háar. Arðsemi eigin fjár er betri mælikvarði, hversu mikill er hagnaður af fjárfestingu eiganda, sem hlýtur að skipta máli ef verið er að bera saman fjárfestingu uppá 650 milljarða króna og smærri fjárhæða.

Arðsemin árið 2021 var góð hjá bönkunum. Hún lá á bilinu 11-15% hjá bönkunum, meðaltalið var 12,6%. Þetta er samt ekki ofurhagnaður á starfsemi þeirra. Landsbankinn, sem er í eigu ríkisins, hefur yfirlýsta stefnu um að þetta arðsemishlutfall verði að lágmarki 10%. Sé litið til meðaltals síðustu fimm ára hefur Landsbankinn staðið sig best í þessum efnum, ef svo mætti að orði komast, með 7,8% arðsemi eigin fjár. Meðaltalið hjá Íslandsbanka var 6,9% og hjá Arion banka var það aðeins 6,4% á þessu tímabili.

Því má bæta við að arðsemi eigin fjár Haga, sem reiðir sig aðallega á rekstri hinna ódýru Bónus verslana, á síðustu fimm árum var töluvert hærri, eða 14.8%. Á síðasta ári (2020-2021) var hún rúmlega 10% og árið þar áður var hún 12.6%, sem er nákvæmlega sama arðsemi og meðaltalið hjá bönkunum á síðasta ári. Á að leggja sérstakan skatt á starfsemi Bónus verslana?

Ávöxtun eigin fjár umfram "áhættulausum fjárfestingum"

Sé litið til atvinnugeira eins og fjármálastofnanir að gefnu tilliti til áhættu þá má gera ráð fyrir að ávöxtunin sé árlega um 5% hærri en á ríkisbréfum sem falla ekki á gjalddaga fyrr en eftir langan tíma. Ég miða hér við lengsta flokkinn á Íslandi, RB31. Ávöxtunin hjá bönkunum var á síðasta ári langt umfram 5% en hún hefur verið slök síðustu fimm ár. Hjá Arion banka hefur ávöxtunin síðustu fimm ár umfram því sem að eigendur skuldabréfa gátu vænst einungis 2% árlega og árin 2018 og 2019 var betri ávöxtun af áhættulausum ríkisbréfum en fyrir hluthafa bankans.

Vaxtamunur

Vaxtamunur á Íslandi er, andstætt almennri umræðu, að lækka. Árið 2017 var hann hjá öllum bönkunum í kringum 3% en hefur verið að lækka hjá þeim öllum, þó minnst hjá Arion banka. Meðaltalið í dag er 2,5%. Vaxtamunurinn í dag er raunar sá lægsti hjá íslensku bönkunum síðan að hrunið 2008 átti sér stað. Nú, þegar að rekstur banka er að verða skilvirkari má þó gera kröfu um að hann lækki niður í 2.0%. Bankarnir geta stigið stórt skref nú þegar í þá áttina með því að hækka breytilega vexti sína minna en sem nemur stýrivaxtahækkunum.

MWM

Hér að neðan er hlekkur að Excel skjali með ofangreindum tölum.

https://www.dropbox.com/s/n4rcs4f09jbklur/islenskir%20bankar%202017%202021.xlsx?dl=0

 


75 punktar - fyrstu viðbrögð

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,75% í morgun. Þetta er töluverð hækkun, sérstaklega í ljósi þess að vextirnir voru 2,0% áður og hækka því um ríflega þriðjung. Ólíkt því sem áður var þá hefur þetta gríðarleg áhrif á mörg heimili, sum hver sem hafa nýlega tekið húsnæðislán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum og í sumum tilvikum gerandi ráð fyrir stöðugu lágvaxtaumhverfi. Það hefur verið gagnrýnt í gegnum tíðina hversu lítið stýrivextir bíta á fasteignamarkaðinn en núverandi aðstæður sýna að sveiflur í stýrivöxtum geta aftur á móti gert almenningi enn meiri grikk því þessi hækkun kemur strax fram í greiðslubyrði fólks. Hækki vextir húsnæðisláns með breytilegum vöxtum til dæmis úr 4,15% í 4,85% þá hækkar vaxtakostnaður þess heimilis um 17%. Heimili sem skuldar 40 milljónir króna þarf því að borga 25 þúsund krónur meira á mánuði í vaxtakostnað. Þetta getur verið þungt högg fyrir marga.

Fólk með fasta vexti finnur ekki strax fyrir þessu en vextir eru ekki fastir í nema 3 eða 5 ár. Eftir það fylgja þeir breytilegum vöxtum svo gleðin við slík lán eru skammvin.

Þó svo að verðbólguvæntingar hafi aukist mikið síðustu mánuði þá gera spár Seðlabankans engu að síður ráð fyrir að verðbólga hjaðni örlítið á þessu ári en sú hjöðnun taki aftur á móti töluverðan tíma. Ekki er því útilokað að stýrivextir hækki enn frekar. Ég hef áður sagt að ég geri ekki ráð fyrir að þær hækkanir verði jafn miklar og sumir greinendur hafa spáð. Sú skoðun er óbreytt. Íslenska krónan hefur styrkst undanfarnar vikur og hefur Seðlabankinn jafnvel unnið á móti þeirri styrkingu, svolítið sem ég skil ekki alveg. Hluti af skýringunni er sú að peningastefnunefndin telur að launahækkanir séu aðal drifkraftur hækkandi verðbólgu. Því eigi að leggja áherslu á að hemja þenslu.

Í því sambandi hefur nefndin áhyggjur af því að stjórnmálamenn séu að vinna á móti stefnu nefndarinnar. Seðlabankastjórinn sagði meira að segja orðrétt að "við verðum að vinna saman." Fram kom að breytingar á greiðslubyrði eigi að draga úr lántökum vegna húsnæðiskaupa.

Augljóst er að vaxtastig getur ekki verið langt undir verðbólgu til lengri tíma. Ávöxtunarkröfur á erlendum mörkuðum gera aftur á móti ráð fyrir því að hátt verðbólgustig sé tímabundið. Helstu liðir sem eru að hækka í BNA eru til dæmis þættir sem tengjast orku og svo bílar, aðallega notaðir bílar, en vöntun á tölvukubbum hefur skapað flöskuháls í eftirspurn. Ég tel líklegt að hækkanir á húsnæði hjaðni verulega í ár og að áhrif erlendra verðhækkana verði óveruleg. Ef vel tekst við að draga úr þenslu þá kemur verðbólga til með að hjaðna sem dregur úr þrýsting vaxtahækanna.

MWM

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband