Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

Hrun, hrun, hrun og meira hrun

Það finnst ef til vill mörgum að verið sé að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um aðkomu þýska bankans Hauck & Auf­hauser að kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003. Búið sé að fjalla um hrunið svo mikið að vart verði meira sagt.

Ég er á öndveðri skoðun. Stór hluti þeirra rannsókna og skrifa hafa að miklu leyti einblínt á ákveðna þætti sem fjölmiðlar hafa auðveldlega náð að skýra frá. Aðrir þættir hafa drukknað í umfangsmiklum skýrslum sem hafa að mínu mati verið í sumum tilvikum illa dregnar saman. Síðan hafa sum atriði hreinlega ekki komið upp á yfirborðið þó svo að þau hafi komið skýrt fram í skýrslum.

Þessi skoðun mín byggist að sumu leyti á rannsóknarvinnu minni og skrifum í tengslum við störf mín hjá Rannsóknarnefnd Alþingis varðandi sparisjóðina. Þar hafði ég yfirumsjón með rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna og þátt þeirra í risi og falli sparisjóðanna. Eitt af því sem þar kemur fram og er sláandi er eignarhald sparisjóðanna.

Rannsókn á fjárfestingum sparisjóðanna einblíndi fyrst og fremst á eignarhlut sparisjóðanna í einu félagi, Exista. Exista var fjárfestingarfélag sem var oft líkt við Berkshire Hathaway sem stýrt er af besta fjárfesti heimssögunnar, Warren Buffett. Sannleikurinn var ekki nálægt því. Exista fjárfesti í nokkrum félögum og komu þar helst til sögunnar helstu eigendur þeirra, Kaupþing banki og Bakkavör. Síðar fjárfesti Exista í Sampo Group og Storebrand, hvort tveggja félög sem tengdust Kaupþingi. Exista átti örfáar eignir og var stöðugt afar gírað, með um það bil helming eigna sinna fjármagnað með lánum. Það þýddi að hagnaður félagsins var mikill þegar að vel gekk en sú áhætta var stöðugt fyrir hendi að ef markaðsvirði þeirra örfáu eigna félagsins myndi falla þá yrði það fljótlega verðlaust.

Þegar að vel gekk högnuðust sparisjóðirnir vel vegna eignarhluta síns í félaginu. Fram kemur á síðu 289 í 10. kafla skýrslunnar á mynd 9 að eignarhlutur alls sparisjóðakerfis Íslands beint og óbeint í Exista í árslok 2006 var 57% af eigið fé sparisjóðanna. Þetta er ekki stafsetningarvilla; 57% alls eigin fjár sparisjóðanna var bundið í einu félagi sem átti örfáa eignarhluti í skráðum fyrirtækjum og var fjármagnað með lánveitingum að stórum hluta. Þetta hlutfall féll niður í 28% í árslok 2007 og voru aðallega tvær ástæður fyrir því. Hvorug þeirra er jákvæð, en ég geri ekki skil á þeim í þessum stutta pistli.

sp exista

Þetta er einungis eitt dæmi af mörgum sem ég veit af um það hversu margt var í ólagi í íslensku bankakerfinu árin fyrir hrun. Dæmum sem ættu heima á spjöldum sögunnar en hafa drukknað í umræðu um margt annað tengt hruninu. Ég skrifa meira um þau seinna.

MWM


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband