Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Gluggi innherjaviðskipta

Trúverðugleiki er eitt af því sem mestu máli skiptir varðandi viðskipti verðbréfa í Kauphöllum. Sé hann ekki til staðar eykst áhættuálag hlutabréfa verulega sem rýrir verðgildi þeirra.

Innherjaviðskipti skipta miklu máli varðandi slíkan trúverðugleika. Slík viðskipti geta rýrt trúverðugleika, jafnvel þó að á baki slíkum viðskiptum séu sömu upplýsingar varðandi stöðu fyrirtækja; aðeins þarf möguleikinn á slíku að vera til staðar. 

Sjá nánar her að neðan.

Gluggi Innherjaviðskipta

Nýlega seldi stjórnarmaður bréf í Icelandair á síðasta degi þriðja ársfjórðungs. Sama dag lækkaði gengi bréfanna mikið í Kauphöllinni. Þar sem að ótti um að Kötlugos væri í aðsigi var í umræðunni sama dag er óljóst hversu mikil áhrif þessi sala hafði á þá staðreynd að bréfin lækkuðu mikið í virði þann daginn. Óumdeilanlegt er þó að þessi sala minnkaði trúverðugleika innherjaviðskipta.

Það verður að teljast ólíklegt að stjórnarmaðurinn hafi ekki góða hugmynd um hver afkoma Icelandair er á þriðja ársfjórðungi og hlýtur sú vitneskja að vera byggð á betri gögnum en almennir fjárfestar hafa aðgang að. Að því sögðu þá tel ég ólíklegt að þessi sala hafi verið byggð á innherjaupplýsingum og tel því ólíklegt að neikvætt uppgjör sé í aðsigi, en engu að síður er hægt að setja spurningarmerki við söluna á þessum tímapunkti.

Það er einföld leið til að koma í veg fyrir sölur sem þessar sem rýra trúverðugleika innherjaviðskipta. Hún er sú að glugginn sem þeir geti átt viðskipti með hlutabréf hvers félags sem þeir eru innherjar í sé takmarkaður við afar stuttan tíma, til dæmis tvær vikur, eftir birtingu hvers uppgjörs. Þar koma fram upplýsingar um nýjustu stöðu skráðs félags og oft fer fram umræða um gengi félagsins þá daga sem liðið hafa frá uppgjörstölum fram að birtingu þeirra. Með þessu er tryggt að innherjar og almennir fjárfestar byggi viðskipti sín á nokkuð svipuðum upplýsingum. 

Tiltölulega nýlegt dæmi um þetta er þegar að formaður stjórnar og framkvæmdastjóri Vodafone keyptu bréf í félaginu daginn eftir að uppgjörstölur ársfjórðungs voru birtar. Það tiltekna uppgjör var betra en almennar væntingar fjárfesta. Með þessu áttu þessi viðskipti sér stað þegar að innherjar Vodafone höfðu álíka aðgang að fjárhagslegum upplýsingum fyrirtækisins og almennir fjárfestar. Með þessu var ekki hægt að saka innherja Vodafone um að nýta sér þær upplýsingar sem þeir höfðu umfram aðra fjárfestum í nokkrar vikur. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að innherjar takmarki viðskipti innan þröngs tímaramma, sem er þó fjórum sinnum á ári, ef það eykur trúverðugleika viðskipta bréfa þeirra í Kauphöllinni. Svona vinnubrögð ættu því íslensk fyrirtæki skráð í Kauphöllinni að tileinka sér.

MWM


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband