Krafa stjórnmálamanna um lægra vaxtastig

Ýmislegt var verið að lofa nú í aðdraganda nýlegra kosninga. Eins og ég hef skrifað um áður, og fleiri tóku undir, þá var hægt að setja spurningarmerki við ýmis loforð. Eitt af því voru (eru) loforð um lækkun vaxta. Fór sú umræða hátt um tíma og er reyndar enn við lýði. Enn heyrast raddir um að lækkandi vaxtastig sé eitt af því sem að mestu máli skiptir varðandi hag íslensku þjóðarinnar.

Því mætti halda að vaxtastig á Íslandi sé að sliga land og þjóð. Það er einfaldlega ekki rétt.* Vaxtastig hérlendis er í kringum meðalvaxtastig á erlendum mörkuðum síðustu áratugi. Raunvextir hérlendis eru hærri en þeir eru nú í útlöndum, og þó þeir eru enn hærri en söguleg raunávöxtun skuldabréfa hefur sá munur hefur minnkað gífurlega síðustu ár.

Þar sem að umræðan hefur verið svo hávær varðandi vaxtastig síðustu vikurnar þá mætti einnig halda að vextir hafi hækkað mikið síðustu ár. Það er hins vegar af og frá. Vaxtastig á Íslandi hefur aldrei verið jafn lágt síðan að fjármálamarkaður fór að myndast á Íslandi fyrir um það bil 30 árum síðan og hefur verið að lækka jafnt og þétt síðustu árin.

Þetta eru staðreyndir sem ég fer hér stuttlega yfir og spyr síðan af hverju verið sé að hamra á þessu núna en ekki áður.

Vaxtastig að sliga land og þjóð

Einfaldast er að líta til Bandaríkjanna hvað vaxtastig varðar. Í bókinni Probable Outcomes eftir Ed Easterling er litið til sögulegrar ávöxtunarkröfu bandarískra skuldabréfa. Þar kemur fram að meðalávöxtunarkrafa bandarískra skuldabréfa með gjalddaga eftir 20 ár var 4,9% árin 1900-2009. Það er hér um bil sama vaxtastig og ríkir á Íslandi í dag. Vaxtastig í Bandaríkjunum hefur flöktað mikið síðustu áratugina. Frá árinu 1965 hófst mikil hækkun á vaxtastigi í Bandaríkjunum sem gerði það að verkum að vaxtastig þar jókst mikið árin 1965-1981 en hefur síðan þá lækkað mikið. Meðalvextir bandarískra ríkisskuldabréfa árin 1960-2000 voru 8,1%, eða töluvert meira en á Íslandi í dag.

Síðan þá hefur vaxtastig í Bandaríkjunum og flestum þjóðum Evrópu lækkað mikið. Er nú svo komið að vaxtastig á flestum nágrannaríkjum okkar er í sögulegu lágmarki. Á því er eðlileg skýring og er hún ekki jákvæð. Samhliða lækkandi vaxtastigi hefur hagvöxtur dregist mikið saman hjá sömu þjóðum. Hagvöxtur í Bandaríkjunum jókst árlega árin 1900-2009 um 3,3%.  Hann var hins vegar aðeins 0,9% árin 2000-2009. Það er mikil samfylgni á vaxtastigi og efnahag því að til þess að geta greitt raunvexti þarf að skapa aukin verðmæti.

Því má við bæta að verðbólga, sem hefur ekki verið jafn lág í áratugi, hefur einnig leitt til nafnvaxtastigs á erlendum mörkuðum sem ekki hefur sést í manna minnum.

Þó svo að vaxtastig á Íslandi sé hærra en hjá nágrannaþjóðum okkar í dag, þá er það engu að síður nálægt því vaxtastigi sem þar hefur sögulega tíðkast. Þó svo að vaxtastig megi alveg lækka meira á Íslandi þá er ekki þar með sagt að það sé að sliga land og þjóð.

Hækkun vaxta á Íslandi

Vaxtastig hefur aldrei verið jafn lágt á Íslandi en einmitt í dag. Lítum á ávöxtunarkröfu ríkisbréfa með gjalddaga 2019.

RB19

 

 

bonds.is

Vaxtastig var töluvert hátt mánuðina fyrir hrun og hefur síðan þá sveiflast í kringum sex til átta prósent síðustu ár, þangað til fyrir um það bil ári síðan þegar að hún fór niður fyrir 5% og er nú í 4,5%. Flest ríkistryggð skuldabréf í dag hafa ávöxtunarkröfu í kringum 5%, burtséð frá því hversu langt er að gjalddaga bréfanna, en hún hefur síðustu 20 ár legið í kringum 7-8%.

Verðtryggð skuldabréf með ríkisábyrgð (óbeina) hafa ekki í manna minnum haft jafn lága ávöxtunarkröfu en einmitt núna. Ávöxtunarkrafa húsbréfa, sem er grunnur verðtryggðra húsnæðislána, var seinni hluta tíunda áratugarins og fyrstu ár þessarar aldar í kringum 5,5% til 6%. Það þýddi að lántakar þurftu að greiða slíka vexti auk álags! Dæmi um hversu háir vextir það eru er að miðað við verðtryggt lán sem ber 6% vexti, og lítið sem ekkert sé greitt af láninu (eins og til dæmis 40 ára annuitets verðtryggt lán) þarf lántaki að greiða á aðeins 12 árum næstum því sem nemur höfuðstól lánsins til baka í vaxtagjöldum. Það kalla ég hátt vaxtastig og gott hefði að stjórnmálamenn hefðu á þeim tímapunkti lofað lækkun vaxta.

Það sem mestu máli skiptir fyrir íbúðaeigendur er raunvaxtakostnaður húsnæðislána. Á fyrstu árum þessarar aldar lækkaði raunvaxtastig verðtryggðra húsnæðislána mikið. Það voru stórtíðindi þegar að Kaupþing lækkaði húsnæðisvexti niður í 4,4%. Lækkuðu vextir niður í 4,15% en fóru þá að hækka á nýjan leik.

lsr vextir sogulegir

 

 

 

 

 

Á myndinni að ofan, sem fengin var á heimasíðu LSR (https://www.lsr.is/media/breytilegir-vextir/Vaxtasaga-og-neytendaupplysingar-LSR-2017-10-01.pdf), sést að breytilegir verðtryggðir útlánavextir sjóðsins af húsnæðislánum fóru í kringum áramót 2007-2008 upp í 5,75% en hafa síðan þá verið að lækka jafnt og þétt síðustu ár. Breytilegir vextir stóðu um tíma í stað í 3,5% (meira um það síðar) en eru nú í fyrsta sinn í sögunni undir 3% og eru nú 2,77%.

Sé litið á vaxtakostnað húsnæðislána sem óbeint leiguverð, sem ég tel vera bestu nálgunina, þá má segja að leiguverð þess hluta húsnæðis sem fólk á ekki (það er sá hluti fasteignar sem fólk skuldar í) hafi lækkað um ríflega helming frá því sem það var um aldamótin.

Fjölskylda sem skuldaði LSR 30 milljón íslenskar krónur borgaði í árlegan vaxtakostnað (leigugjald fyrir þann hluta fasteignarinnar sem hún átti ekki) í upphafi árs 2008 (vel að merkja fyrir hrun) 1.725.000 krónur. Á þeim tímapunkti hefði vaxtakostnaður (auk vaxtavaxta) numið svipaðri upphæð og lánið. Í dag þyrfti fjölskylda með sama lán hjá LSR að greiða 831.000 krónur í árlegan vaxtakostnað. Það kostar því 894.000 minna í vaxtakostnað fyrir fjölskyldu í dag að fjármagna 30 milljóna króna fasteignalán.

Raunvaxtastig bandarískra ríkistryggðra skuldabréfa árin 1900-2009 var í kringum 1,5% en er nú vart mælanlegt. Sé litið til raunvaxtastigs á Íslandi þá veita verðtryggð íbúðabréf í dag 2,0-2,3% raunávöxtun, án vaxtaáhættu. Sé miðað við meðaltal til lengri tíma er raunvaxtastig í dag enn hærra, en ekkert í samlíkingu við hið gríðarlega háa raunvaxtastig sem hefur tíðkast síðustu ár. Miðað við eðlilegt álag á húsnæðislánum miðað við ávöxtunarkröfu ríkissjóðs sé litið til meðaltalsins í Bandaríkjunum þá ætti vaxtastig hérlendis að vera rúmlega 2%, ekki fjarri því sem það er í dag.

Stjórnmálamenn og vextir?

Vaxtastig á Íslandi var mjög hátt en er í dag orðið miklu raunhæfara. Þó svo að ég telji enn vera svigrúm fyrir enn frekari lækkun vaxta þá er það ekki lengur mikið.

Af hverju eru stjórnmálamenn núna á þessum tímapunkti að lofa lækkandi vaxtastigi? Öllu heldur, af hverju var ekki meiri áhersla á þetta atriði áður, þegar að miklu meiri ástæða var til þess? Höfðu þeir áhuga á þessu atriði áður? Ég held ekki. Hér eru nokkur dæmi þar sem ég fjallaði um hátt vaxtastig án þess að margir stjórnmálamenn hafi tekið undir sjónarmið mín. Þó kom umræðan um hátt vaxtastig fram á áberandi stöðum og veittu þeim góða ástæðu til að taka málið upp.

Dæmi: Árið 2010 birtist þetta viðtal við mig í Fréttablaðinu og þar stendur - Már Wolfgang Mixa fjármálafræðingur telur að lækka þurfi núverandi 3,5% lágmarks ávöxtunarkröfu hjá lífeyrissjóðunum. Slíkt myndi veita svigrúm til lækkunnar á raunvöxtum sem Már telur vera alltof háa í dag og óraunhæfa. - http://www.visir.is/g/2010497751323.

Heyrðist eitthvað frá stjórnmálamönnum? Svarið er nei.

Dæmi: Ég skrifaði árið 2011 enn frekar um þetta þar sem ég kallaði eftir að lækka 3,5% lágmarks ávöxtunarkröfu hjá lífeyrissjóðunum. Þar skrifaði ég: Því hlýtur það að vera hlutverk löggjafans að breyta þessum lögum hið fyrsta svo að þau séu í takti við aðstæður, t.d. að samræma þau við ávöxtunarkröfur sem ríkja á hverjum tíma, og losi lækkun raunvaxta úr fjötrum. Líklegt er að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækki enn frekar með auknum sveigjanleika í lögum varðandi ávöxtun lífeyrissjóða. - http://www.visir.is/g/2011110329814.

Heyrðist eitthvað frá stjórnmálamönnum? Svarið er já. Tveir aðilar fjölluðu nánar um þetta mál. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir spurði í aðsendri grein eftirfarandi: Hversu raunsætt er að byggja lífeyriskerfi á ávöxtun upp á 3,5% og hvaða áhrif hefur þetta viðmið á fjármálamarkaði og vaxtastig í landinu. - http://blog.pressan.is/marmixa/2011/11/30/35-avoxtunarkrafa-sigridur-ingibjorg-leggur-ord-i-belg/. **

Ég mætti í viðtal í Speglinum í framhaldi af þessari grein og tveimur dögum síðar mætti annar stjórnmálamaður í sama þátt vegna sama efnis. Sá maður sagðist ekki vona að 3,5% krafan myndi lækka heldur var hann að vona að bráðlega fyndust aftur fjárfestingarkostir án áhættu sem gæfu hærri ávöxtun en nú finnst á markaði, þetta 3-4%. 

Opinberlega var því stundum haldið fram að 3,5% vaxtagólfið væri einungis viðmið. Það tel ég vera ólíklegt. Dæmi: Ég skrifaði opið bréf til stjórnar LSR þar sem ég kvartaði undan því að sjóðurinn lækkaði ekki vexti sína neðar en 3,5%. Þetta var forsíðufrétt Viöskiptablaðs Morgunblaðsins 30.8.2012 svo varla fór þetta framhjá mörgum stjórnmálamönnum.

lsr vaxtavidmidun

 

 

 

 

 

 

 

 

Heyrðist eitthvað frá stjórnmálamönnum? Svarið er nei.

Nokkrum mánuðum eftir að þessi grein birtist lækkuðu breytilegir vextir LSR niður í 3,5%, stóðu þar í töluverðan tíma og eru núna í 2,77%.

Af hverju krafa um lægra vaxtastig núna?

Það er engin einhlýt skýring á því að vaxtastig sé lægra í dag en í gær (og síðustu áratugi). Einfaldasta útskýringin er einfaldlega sú að eftirspurn eftir lánum er minna en framboð á fjármagni í sögulegu tilliti. Gjaldeyrishöft síðustu ára hafa án efa haft áhrif í þeim efnum. Einnig spilar betra lánshæfismat stórt hlutverk í þeirri þróun.

Hugsanlega hefur lítil þörf á afskriftum lána einnig haft áhrif, en auknar afskriftir koma á endanum niður á vaxtakjör allra, því það þarf að fjármagna kostnað í sambandi við afskriftir útlána.

Ekkert af ofangreindu hefur, aftur á móti, átt sér stað fyrir tilstuðlan stjórnmálamanna. Fátt í loforðum þeirra hefur tengst umræðu um það hvernig þeir ælti að lækka vexti. Sumir hafa tengt umræðuna við afnámi verðtryggðra lána, eins og að slíkt myndi lækka vaxtastig á Íslandi. Slíkt er langt frá því að vera í hendi og það er allt eins líklegt að afnám verðtryggðra lána myndi hækka raunvaxtastig á Íslandi.

Sumir þeirra hafa lagt til að taka upp annan gjaldmiðil með það fyrir augum að það myndi lækka vaxtastig. Nafnvaxtastig myndi án efa lækka. Það er þó ekkert víst að raunvaxtastig, sem skiptir íslensk heimili langmestu máli, lækki við upptöku annars gjaldmiðils. 

Hafi stjórnmálamenn einhver áhrif á að stuðla að lækkandi vaxtastigi næstu árin þá er það með því að leggja kraft í að mynda umhverfi í fjármálakerfinu sem gerir lækkandi vaxtastig mögulegt. Það væri hægt með því að einfalda bankakerfi landsins og hafa hugmyndir um samfélagslegan banka, sem væri í raun Íbúðalánasjóður útgáfa tvö, verið nefndar í því sambandi. Slíkar hugmyndir gætu vel gengið svo lengi sem tryggt væri að aðhald í útlánum væri til staðar, sérstaklega á þenslutímum.

MWM

*Þetta kemur einnig fram í frétt sem birtist í þann mund sem ég var að skrá þessa færslu - http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2017/11/22/vextir_a_ibudalanum_sjaldan_verid_laegri/.

**Það var ónákvæmni hjá mér að segja að breyta þyrfti lögum því um viðmið er að ræða samkvæmt reglugerð en breyting á henni hefði falið í sér skerðingar á lífeyri fólks. Með öðrum orðum, með því að halda reglugerðinni óbreyttri var óbeint verið að halda vaxtastigi háu til að vernda lífeyri fólks til ákveðins tíma, en slík aðgerð, eða öllu heldur skortur á aðgerð, svipar til þess að sópa raunveruleikanum undir teppið. - http://www.althingi.is/altext/140/s/0642.html.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband