Patent bankalausnir & hlutafjárútboð Eimskips

Það er jákvætt að umræða um betri banka sé að aukast. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að ákveðin orðræða sé að myndast þar sem að stór hluti fólks telur ákveðið ferli vera augljósa lausn við myndun öflugs fjármálakerfis, en ferlið leysir í raun engan vanda. Þannig verði (næstum því) allir sammála um að fara af stað á ný með uppsetningu bankakerfis; aðeins til að komast allt í einu að því að það ræðst ekki að ekki rót vandans.

 

Patent lausn

 

Huginn Freyr Þorsteinsson, aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, skrifaði grein í Fréttablaðið í síðustu viku þar sem hann lýsir efasemdum um virkni innstæðutryggingarkerfis. Hann bendir réttilega á að aldrei verður hægt að reiða sig á tryggingarsjóð þegar kemur að stóru fjármálalegu áfalli. Hann hefði átt að bæta því við að innstæðutryggingarsjóður var aldrei fjármagnaður að því marki sem hann átti að vera samkvæmt lögum.

 

Huginn telur að með því að forgangsraða innstæðum ef banki fer á hausinn sé vandamálið (nánast) leyst. Þessi patent lausn sneiðir að mati Hugins því einnig fram hjá því að aðskilja fjárfestinga- og viðskiptastarfsemi banka, sem Huginn telur að sé erfitt í framkvæmd (þó svo að slíkur aðskilnaður hafi ríkt í Bandaríkjunum stærstan hluta síðustu aldar).

 

Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður hjá Fréttablaðinu, er ekki sammála rökum Hugins hvað varðar forgang innstæðna en segir þó: Það eru líkast til allir sammála um að það verði að finna leiðir til að afnema ríkisábyrgð á bankakerfinu. Það má ekki gerast aftur að mikilmennskubrjálæði sjálfvottaðra fjármálasnillinga sendi heilt hagkerfi á efnahagslega gjörgæsludeild.

 

Ábyrgð og aðskilnaður

 

Hér gefur Þórður sér að afnám ríkisábyrgðar á bankakerfinu sé eitthvað sem fólk sé almennt sammála um, með þeim rökum að þetta hafi verið forsenda þess að sjálfvottaðir fjármálasnillingar gátu lagt bankakerfi Íslands í rúst, og þá líklegast einnig á alþjóðlegum vettvangi.

 

Báðir aðilar líta framhjá þeirri staðreynd að ríkisábyrgð bankainnstæðna og aðskilnaður á starfsemi banka (fjárfestinga- og viðskiptabanka) varð að lögum í Bandaríkjunum árið 1933, í kjölfar Kreppunnar miklu, og í framhaldinu urðu bankahrun afar sjaldgæf.

 

Á Vesturlöndum ber helst að nefna bankahrunið á Norðurlöndunum í upphafi 10. áratugarins sem kom í kjölfar þess að höft í bankarekstri voru afnumin án þess að regluverk og eftirfylgni með því væri uppfært (hljómar kunnuglega). Þetta myndaði fasteignabólu. Einnig töpuðu sparisjóðir mikið á glæfralegum fjárfestingum þegar þeir fundu (eða mynduðu, hvernig sem á það er litið) glufur í lögum er sem leiddu til þess að þeir gátu farið að fjárfesta í glæfrasömum vafasömum verkefnum, beint og óbeint með kaupum í á skuldabréfum á seinni hluta 9. áratugarins.

 

Árið 1999 var aðskilnaður banka afnuminn en ríkisábyrgð hélst.

Innan við áratugur leið frá afnámi aðskilnaðar þar til bankakerfið var rjúkandi rúst, sem hið opinbera hér og víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum þurfti að aðstoða með einum eða öðrum hætti (upphæðin er stjarnfræðileg í USA). Þó virðist orðræðan vera á þá leið að ríkistrygging innstæðna jafngildi einhverri gamalli hugmyndafræði í anda kommúnisma og hafi opnað dyrnar að óábyrgum bankarekstri.

 

Haldlitlar lausnir

 

Huginn telur að almenningur eigi sjálfur að vega og meta hvort bankar séu nægilega stöndugir til að þeim sé treystandi til að taka við fjármagni. Margir Bandaríkjamenn treystu, þrátt fyrir innstæðutryggingar, ekki bönkum fyrir sparifé sínu í áratugi eftir Kreppuna miklu. Margir innlendir og erlendir starfsmenn banka áttuðu sig ekki á því hversu slæm staða þeirra var fyrr en þeir voru komnir í þrot.

 

Spyrja má einnig hvort ríkissjóður muni í raun standa aðgerðarlaus hjá þegar í harðbakkann slær fari innlendur banki á hausinn. Það hljómar vel í eyrum margra að segja nei; að standa við slík orð er aftur á móti hægara sagt en gert.

 

Auk þess gerist það, að í hvert sinn sem orðrómur fer á kreik um hugsanlega erfiðleika hjá banka eða ríki, eða einhvers konar lausafjárkreppu, þá er það nánast orðin skylda fjármálastjóra allra fyrirtækja Íslands að taka pening út úr bönkum til að tryggja að hægt sé að greiða laun, reikninga og til að dekka alls kyns fjármagnsgjörninga. Slíkt verður fljótlega til þess að orðrómur, hversu óáreiðanlegur sem hann er, getur orðið til þess að veikja innlent bankakerfi án innstæðutrygginga.

 

Íslendingar fengju því með þessu bankakerfi byggt á patent lausnum sem hljómar og virkar vel fram að því augnabliki þegar á reynir; eins og viti sem virkar alltaf nema í stórsjó. Svipaður veikleiki var til staðar í Bandaríkjunum fyrir rúmri öld, sem var meðal annars stór ástæða hrunsins árið 1907 og var eitt af helstu rökum þess að stofna seðlabanka landsins árið 1913.

 

Sterkt kerfi

 

Rétt eins og ríki og sveitafélög tryggja ákveðna grunnþjónustu eins og vatns-, rafmagns- og hitaveitu er eðlilegt að hið opinbera tryggi rekstur heilbrigðs bankakerfis. Án slíkrar tryggingar er grafið undir grunnstoðum þessa samfélags.

 

Stórt skref í þá áttina er að aðskilja fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi. Tryggja þarf innstæður viðskiptabankastarfseminnar og setja innstæður í forgang útgreiðslna komi til gjaldþrots. Vextir á innstæðum bæru með sér ákveðið tryggingargjald sem þýðir að innstæðueigendur þyrftu augljóslega að sætta sig við slakari vaxtakjör en ella. Aðeins þannig verður sterkt bankakerfi byggt upp á Íslandi.

 

Að neðan er hlekkur á grein Hugins sem vísað er í:

http://visir.is/fjarmalakerfi-a-eigin-fotum/article/2012710259995

Að neðan er hlekkur á grein Þórðar sem vísað er í:

http://visir.is/leid-ad-einangrun/article/2012710269931

Að neðan er hlekkur á grein mína sem birtist í Fréttablaðinu í gær, 31.10.2012, þar sem ég svara grein Hugins á svipuðum nótum og í þessari grein.

http://visir.is/fjarmalakerfi-a-eigin-fotum/article/2012710259995

 

Eimskip - Hlutafjárútboð

Útboði 8% hlutafjár sem almenningi stendur til boða í Eimskipafélagi Íslands hf. lýkur föstudaginn 2.11.2012. Því miður var ekki fengin óháður aðili til að greina félagið fyrir almenning eins og gert var í útboði hlutabréfa Regins hf. í sumar. Þess í stað voru tvær skýrslu gerðar einungis fyrir fagfjárfesta. Þetta veitir almennum fjárfestum litla möguleika til að vega og meta nauðsynlegar forsendur varðandi verðmat félagsins.

Skilmerkileg kynning (sú besta sem ég hef séð í tengslum við hlutafjárútboð á Íslandi) var aftur á móti gerð sem hægt er að nálgast á heimasíðu Íslandsbanka hérna - http://vib.is/fraedsla/upptokur/upptaka/item118720/Nyr_fjarfestingarkostur_a_hlutabrefamarkad:_Eimskip/ - og auk þess veitir bankinn góða þjónustu varðandi fyrirspurnir í tengslum við útboðið.

Ég hef gluggað í tölurnar í ofangreindu skjali og tel markaðsvirði félagsins í þessu útboði vera í hærri kantinum. Útboðsgengið er 208 en að mínu mati ætti markaðsvirði félagsins að vera í kringum 180-190.

Hagnaður þarf því að aukast töluvert til að mæta þeirri ávöxtunarkröfu sem er innbyggð í gengi bréfanna. Slíkt gæti hæglega átt sér stað ef efnahagur á alþjóðavettvangi réttir úr kútnum. Þetta er því ekki alslæm fjárfesting á þessu gengi - uppbygging efnahagsreiknings félagsins og rekstur þess eru til dæmis á traustum grunni - en til að ég færi að telja þetta vera eftirsótta fjárfestingu hefði gengið þurft að vera töluvert lægra.

MWM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband