Vaxtalækkun SÍ - fyrstu viðbrögð - mikil lækkun óverðtryggðra húsnæðislána

Seðlabanki Íslands var rétt í þessu að lækka stýrivexti um 0,5%. Í yfirlýsingu Seðlabankans kemur eftirfarandi fram:

Vísbendingar eru um að peningastefnan hafi náð meiri árangri undanfarið en vænst var fyrr á þessu ári. Því er útlit fyrir að hægt verði að halda verðbólgu við markmið til miðlungslangs tíma litið með lægri vöxtum en áður var talið.

Ég tel að Seðlabankinn hafi einfaldlega ofmetið vænta verðbólgu. Reyndar kemur það fram í tilkynningu bankans og rétt er að minnast þess að auðvelt er að vera vitur eftir á. Auk þess hefur aðhald í peningastefnu bankans sjálfssagt dregið úr verðbólgu, en að mínu mati hefði þó ekki átt að hækka stýrivexti fyrir um það bil ári síðan. Þessi mikla vaxtalækkun í morgun og mildari tónn í kynningu bankans gefur til kynna að bankinn lækki vexti jafn enn frekar. Rétt er að minnast þess þó að of miklar vaxtalækkanir gætu virkað eins og olía á eld sé slikt notað sem samlíkingu við verðbólguna. 

Áhyggjur af verðbólgu

Þegar að skuldaleiðréttingin var kynnt þá höfðu margir áhyggjur af því að slíkt myndi leiða til verðbólgu. Sagan sýnir hins vegar að eftir að miklar kreppur hafi átt sér stað þá sé tilhneiging hjá fólki af grynnka fyrst og fremst á skuldum sínum. Því taldi ég þetta ekki vera þensluhvetjandi aðgerð (sjá hérna og hérnaog því ekki tilefni til að hafa áhyggjur af verðbólgu.

Þau rök að aukin þensla myndi sjálfkrafa leiða til verðbólgu voru einnig að mínu mati röng. Aukin þensla í íslensku efnahagslífi kæmi áreiðanlega til með að rétta gengi krónunnar og lækka því verð innfluttra vara. Það að launavísitalan hafi hækkað jafn mikið undanfarið er einfaldlega jákvæð afleiðing af bættum efnahagshorfum á Íslandi. Auk þess var stór hluti SALEK samkomulagsins með því sniði að launahækkanir fóru í auknum lífeyrissparnaði, sem fer þá ekki í strax verðlagið nema að fólk fari að taka aukin lán því það á orðið svo mikinn sparnað (það er þekkt að aukin reglubundin sparnaður geti leitt til þess að fólk taki hærri lán en ella). Engu að síður tel ég þó að hækkun launa eigi eftir að smám saman auka verðbólgu á næsta ári og ólíklegt er að hún haldist undir 2% til lengri tíma hjá þjóð með mikla fólksfjölgun, lítið atvinnuleysi (einungis 2,1% núna) og kröftugan hagvöxt.

Óverðtryggð húsnæðislán

Vonandi leiðir þessi vaxtalækkun til þess að vextir óverðtryggðra húsnæðislána lækki á næstu dögum. Það er reyndar meira rými en 0,5% lækkun fyrir hendi að mínu mati. Raunvextir húsnæðislána hafa verið í kringum 6% síðustu mánuði á meðan að raunvextir verðtryggðra lána eru á bilinu 3-4%. Sé miðað við tvær fjölskyldur sem skulda hvor 20 milljónir, önnur með verðtryggt lán og hin með óverðtryggt lán, þá er mismunur á árlegum raunvaxtakostnaði 400 þúsund krónur á milli lána (hér miða ég við 4% verðtryggða og 6% óverðtryggða raunvexti). Það munar um minna! Þetta eru góð rök fyrir því að hafa 50% lána verðtryggð og 50% óverðtryggð í upphafi því að slíkt jafnar sveiflur á greiðslubyrði og fólk greiðir hraðar niður óverðtryggða hlutann (sjá grein mína um þetta hérna).

MWM 

ps. Ávöxtunarkröfur skuldabréfa hafa lækkað gífurlega mikið í fyrstu viðskiptum dagsins sem eykur líkur á töluveðri vaxtalækkun óverðtryggðra húsnæðislána.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og sautján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband